Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 13. júní 2001 kl. 09:59

Lyf sem vímuefni

Í þessum pistli held ég áfram að fjalla um vímuefni. Ætlunin er að fjalla um flokkun vímuefna og orðaskýringar og einnig um lyf sem vímuefni. Vímuefni má flokka með ýmsum hætti. Hér eru þau flokkuð eftir því hvers konar vímuáhrif þau hafa á neytandann. Áfengi, kannabis og lífræn leysiefni (SNIFF) eru þó flokkuð sér.

1. Áfengi
2. Kannabis
3. Verkjadeyfandi vímuefni
4. Róandi vímuefni
5. Örvandi vímuefni
6. Skynvilluefni
7. Lífræn leysiefni – SNIFF

Orðaskýringar:

Fíkn/ávani: Yfirþyrmandi löngun eða nauðsyn þess að halda áfram notkun vímefnis eða lyfs. Vímuefni geta valdið líkamlegum og sálrænum ávana (eins og rætt var um í síðasta pistli).

Þol: Við endutekna notkun vímefna minnka oft áhrifin. Líkaminn hefur þá myndað þol gagnvart efninu. Þess vegna verður neytandinn að auka skammtinn til að ná sömu áhrifum.

Fráhvarfseinkenni: Ef notkun sumra vímuefna er skyndilega hætt bregst líkaminn mjög illa við. Hann getur varla verið án efnisins. Fráhvarfseinkenni sumra vímugjafa eru mjög kvalafull og stundum óbærileg án læknishjálpar.

Sjúkdómar hafa herjað á mannkynið og aðrar lifandi verur frá örófi alda og valdið miklum þjáningum. Drepsóttir og plágur hafa oft höggvið stór skörð í lífríkið og skilið eftir auðn og vesöld. Í aldaraðir hafa menn leitað lyfjaefna til að létta þessar þjáningar, upphaflega fyrst og fremst í náttúrunni. Fyrstu lyfin, sem vitað er um, voru búin til úr jurtahlutum og líffærum dýra og mun veikari og áhrifaminni en þau lyf sem notuð eru nú. Mörgum sjúkdómum hefur verið útrýmt með lyfjum og aðrir gerðir hættuminni en nýir hafa komið í staðinn. Því stendur leit mannsins að lyfjum enn.
Þróun í lyfjafræði hefur verið mjög hröð síðustu áratugi. Fundist hafa lyf gegn ýmsum smitsjúkdómum og nú eru til fjölmörg lyf gegn tauga- og geðsjúkdómum sem áður þekktust ekki, einnig hafa komið fram lyf sem hemur HIV-veiruna o.fl. mætti telja upp hér. Á hverju ári er hafin framleiðsla nýrra lyfja og eldri lyf tekin úr umferð.
Auk þess að búa til lyf úr jurta- og dýraríkinu er nú farið að framleiða lyf með efnafræðilegum aðferðum. Aukin þekking og tækninýjungar hafa gert okkur kleift að búa til miklu sérhæfari lyf en áður, lyf sem eru miklu virkari eða sterkari en þau sem áður voru til. Mjög litla skammta þarf til að áhrif þeirra komi í ljós. Notkun þeirra er því miklu vandasamari og varasamari en eldri og veikari lyfja.
Á sama tíma og miklar framfarir hafa orðið í lyfja- og læknisfræði hefur tiltrú fólks á mátt lyfja aukist. Lyf eru í hugum margra bót, ekki aðeins sjúkdóma heldur einnig alls sem angrar manninn andlega, t.d. kvíða, áhyggna, spennu og svefnleysis. Margir nota einnig lyf vegna þess að þeir eiga í erfiðleikum með samskipti við aðra. Af þessu er ljóst að margir nota lyf til að þurfa ekki að líta jafn raunsætt á veruleikann og ella og til að komast hjá því að takast á við mörg viðfangsefni daglegs lífs. Margir forðast þannig að takast á við ýmis óþægindi og erfiðleika í lífinu og fara því á mis við nauðsynlegan þroska. Óhófleg lyfjaneysla gerir fólk með tímanum illfært um að leysa sín mál. Það hefur lært á flóttann og finnst hann þægilegri en viðnámið. Tilgangurinn með lyfjatökunni er þá ekki lengur sá að vinna bug á sjúkdómnum heldur að komast í vímu, komast í ástand sem truflar veruleikaskynið. Þess vegna notum við orðið vímuefni hér. Með því er átt við hvers konar efni sem fólk notar til að komast í þetta ástand. Ýmiss konar heiti hafa verið notuð á þessi efni, t.d. eiturlyf, fíkniefni og ávanalyf. Þessi heiti lýsa eiginleikum og hugsanlegum afleiðingum neyslu þessara efna en í orðinu vímuefni felst lýsing á því til hvers fólk notar þau.
Neysla vímuefna hefur aukist verulega hér á landi undanfarin ár. Það sama hefur gerst um nær allan heim. Margir hafa reynt að finna skýringu á þessari öfugþróun en engin einhlít svör hafa gefist.
Í næsta pistli fjalla ég um lífræn leysiefni – SNIFF.

Sif Gunnarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024