Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lýðræðisumræða í bæjarstjórn
Mánudagur 24. október 2005 kl. 10:34

Lýðræðisumræða í bæjarstjórn

Líflegar umræður um lýðræðisleg vinnubrögð spruttu upp á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í síðustu viku. Fyrir nokkru síðan hafði Kjartan Már Kjartansson, fulltrúi Framsóknarflokksins, lagt fram fyrirspurn um fjölda og funda hjá nefndum bæjarins og mála sem þær tækju fyrir.

Hafði honum fundist sem lýðræðisleg umræða í stjórnsýslu bæjarins hafi farið halloka með stjórnarháttum núverandi meirihluta þar sem fulltrúar minnihluta kæmu ekki að málum fyrr en komið væri að ákvörðunartöku. Óskaði Kjartan því eftir samantekt á málinu.

Gögn sem stjórnendur allra sviða bæjarins tóku saman voru kynntar á fundinum og var það skoðun meirihlutans að með nútímalegri starfsháttum hefði tekist að auka skilvirkni stjórnsýslunnar. Skýrði það fækkun mála sem pólitískt kjörnar nefndir fjölluðu um en hefði í för með sér aukna skilvirkni í þjónustu við bæjarbúa og samstarfsaðila bæjarins.

Allir sem tóku til máls á fundinum fögnuðu umræðu um lýðræðisleg vinnubrögð á sveitarstjórnarsviðinu. Þeir voru sammála um að alltaf væri hægt að gera betur í þessum málum. Fulltrúar minnihlutans vöruðu hins vegar við því að skilvirknin yrði á kostnað lýðræðisins, en það væri afar vandmeðfarin umræða. Guðbrandur Einarsson, fulltrúi Samfylkingar, lýsti einnig þeirri skoðun sinni að þar sem einn flokkur sæti í hreinum meirihluta, væri enn frekari þörf á aðhaldi í lýðræðismálum.

Bæjarstjórnarmenn þökkuðu einnig starfsfólki bæjarins sem hafði greinilega lagt mikla vinnu í skýrslur sínar og boðuðu frekari umræður um efni þeirra eftir því sem þeim gæfist kostur á að kynna sér niðurstöðurnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024