Lýðheilsuvísar fyrir Suðurnes
Nýjustu lýðheilsuvísar frá Embætti landlæknis voru kynntir á dögunum en þeir eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan íbúa. Þeim er ætlað að auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna á sínu svæði, finna styrkleika og áskoranir og vinna markvisst að því að bæta heilsu íbúa. Nýjustu tölur um Suðurnesin þar sem við vorum frábrugðin öðrum á landinu var að íbúafjölgun var mest, fleiri framhaldsskólanemar meta andlega heilsu sína góða, fleiri sérfræðinga heimsóknir, fleiri glíma við fjárhagserfiðleika, einmanaleiki fullorðinna er meiri og fleiri fullorðnir meta líkamlega og andlega heilsu slæma. Á Suðurnesjum fjölgar öryrkjum milli ára, íbúar reykja meira en aðrir á landinu, fleiri fullorðnir sem stunda enga rösklega hreyfingu og íbúar sofa einnig of lítið á þessu svæði.
Munur á heilsu og líðan eftir svæðum er þekkt um allan heim og til að draga úr þessum mun þarf að fylgjast með mælikvörðum. Mikilvægt er að leggja áherslu á að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilsu og vellíðan allra. Reykjanesbær er heilsueflandi samfélag eins og öll sveitarfélögin á Suðurnesjum og geta þau og heilbrigðisþjónusta ásamt hagsmunaaðilum unnið saman að því að bæta heilsu allra. Þættir sem teknir eru fyrir í lýðheilsuvísum fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Mikilvægt er fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum að taka lýðheilsuvísa föstum tökum og vinna markvisst að aðgerðum sem stuðla að bættri heilsu íbúa. Fjölmargir þættir hafa áhrif á heilsu og líðan en sumum áhrifaþáttum heilsu er ekki hægt að breyta, eins og tengdum aldri og erfðum en margir þættir heilbrigðis eru þess eðlis að hafa má áhrif á þá og stuðla að bættri heilsu og vellíðan einstaklinga og minnka líkur á sjúkdómum. Til dæmis með betri lifnaðarháttum sem tengjast áfengis- og tóbaksneyslu, mataræði, hreyfingu og svefni og bæta félagsleg samskipti. Með því að hafa heilsu og líðan að leiðarljósi í allri stefnumótun og aðgerðum má skapa umhverfi og aðstæður í samfélögum sem stuðla að betri heilsu og vellíðan allra.
www.landlaeknir.is
Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
BA sálfræði, MBA.
Aðalmaður í lýðheilsuráði og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ fyrir Sjálfstæðisflokkinn.