Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lúsin sprettur upp um leið og skólarnir hefjast!!
Miðvikudagur 9. ágúst 2006 kl. 21:44

Lúsin sprettur upp um leið og skólarnir hefjast!!

Á hverju hausti kemur lúsin í heimsókn í skólum og leikskólum landsins og eru skólarnir á Suðurnesjum engin undantekning.  Höfuðlúsasmit verður ekki vegna óþrifnaðar heldur smitast oft í ferðalögum utanlands og svo á milli manna.  Það geta allir fengið lús.
Oft er vandamál að uppræta hana og má það rekja til þess að ekki er nægilega vel kembt og farið eftir leiðbeiningum um meðferð.  
Þetta árið langar okkur að vera einu skrefi á undan lúsinni og hvetja alla foreldra á Suðurnesjum til að kemba börnum sínum áður en skólarnir/leikskólarnir byrja núna í haust og veita viðeigandi meðferð ef lús finnst.  Ekki má hefja skólagöngu fyrr en meðferð er hafin.
Kembing í leit að höfuðlús í blautu hári


• Þvo hár með venjulegri aðferð, skola og setja venjulega hárnæringu sem höfð er áfram í hárinu og hárið haft blautt.
• Greiða burtu allar flækjur – hárið er enn blautt.
• Skipta frá greiðu/bursta yfir í lúsakamb og hafa undir hvítt blað eða spegil, til að auðveldara sé að sjá hvort lús fellur úr hárinu.
• Skipta hárinu upp í minni svæði, til að auðvelda skoðun alls hársins.
•  Draga kambinn frá hársverði að hárendum og endurtaka þar til farið hefur verið vandlega í gegnum allt höfuðhárið.
• Eftir hverja stroku skal skoða hvort lús hefur komið í kambinn og þurrka úr með bréfþurrku áður en næsta stroka er gerð.
• Nit lúsarinnar, sem líkist flösu í fljótu bragði en er föst við hárið, er oft að finna ofan við eyrun og við hárlínu aftan á hálsi. Nit ein og sér er ekki órækt merki um smit, sérstaklega ekki ef hún er langt frá hársverðinum því þá er lúsin í henni að öllum líkindum dauð.
• Eftir kembingu alls hársins skal skola úr hárnæringuna.
• Kemba aftur til að athuga hvort einhver lús hefur orðið eftir.
• Þrífa kambinn með heitu sápuvatni og þurrka.
Hvað skal gera ef lús finnst?
• Tilkynna til skólaheilsugæslu viðeigandi skóla.  Veitir upplýsingar og fræðslu.
• Kaupa viðeigandi lyf í næstu lyfjabúð, góðar upplýsingar hægt að fá þar.
• Halda ró sinni.


Kveðja frá hjúkrunarfræðingum skólaheilsugæslu HSS.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024