Er Lottó gott málefni?
Ég man þegar Íslensk getspá byrjaði að selja Lottómiða. Auglýsingin „Lottó 5/32“ ómar í höfðinu á mér við tilhugsunina, en á þeim tíma vann ég við afgreiðslustörf í versluninni Nonna & Bubba í Keflavík, þá fjórtán ára. Lottómiðar voru seldir í hrönnum í gegnum Lottó vélina – gímald sem var staðsett á hverjum búðarkassa. Síðan eru liðin mörg ár og tækninni hefur heldur betur fleygt fram.
Lottópotturinn náði nýjum hæðum um helgina. Áttfaldur pottur upp á 132 milljónir króna. Íslensk getspá auglýsir Lottó með tilvísun í að verið sé að styrkja gott málefni (ÍSÍ, ÖBÍ og UMFÍ). En þrátt fyrir það þá þarf enginn að fara í grafgötur með að fólk spilar í lottó í þeirri einu von að vinna stóra pottinn. Annars tæki það ekki þátt. Það sem stingur kannski í augun er að aðeins 45% af veltu lottómiða fer í vinninga.
Íslensk getspá ehf. rekur Lottóið og fleiri lottóleiki. Lauslegir útreikningar sýna að árin 2015 til 2017 voru seldir lottómiðar fyrir rúmlega 13,1 milljarð króna. 5,8 milljarðar fóru í vinninga, eða 44%. Rekstarkostnaður með afskriftum nam tæplega 3 milljörðum króna eða 22% af seldum miðum.Það kostar sem sagt um 1 milljarð króna á ári að reka Íslenska getspá ehf. Félagið á eigin fasteign og fjárfestir í sölukerfum, bifreiðum og hugbúnaði fyrir verulegar fjárhæðir á hverju ári. Það sem eftir stendur, 1/3 af sölutekjunum, rennur til góðgerðarmálanna sem auglýst eru í bak fyrir til að réttlæta miðakaupin. Það er að mínu mati ekki mikið. Lottó er fjárhættuspil. Þó það sé rekið undir jákvæðum formerkjum þá er það samt ekkert annað en fjárhættuspil. Lottó er í raun ekkert skárra en hinir umdeildu spilakassar Gullnámunnar, sem greiða þó út 90% í vinninga á meðan 45% fara í vinninga hjá Lottóinu.
Í stuttu máli er verið að halda úti kostnaðarfreku apparati undir þeim formerkjum að verið sé að styrkja góð málefni. Og ekki misskilja mig, þetta eru sannarlega þörf og góð málefni. En við, þjóðin, erum að kasta milljarði á ári á glæ með því að halda úti þessu fjárhættuspili. Allur þessi rekstur skilaði þessum góðu málefnum 1,3 milljónum króna í arð 2017 en það kostaði 1 milljarð að afla þeirra. Það erum við, þjóðin, sem erum að borga þennan milljarð í gegnum vonarskattinn. Væri ekki einfaldara að styrkja þessi málefni beint í staðinn fyrir að vera skattlögð óbeint í gegnum vonina um þann stóra? Þá er ég ekki að telja með þann þjóðhagslega ávinning sem hlýst af því að ýta ekki undir spilafíkn.
Og að lokum ef þú ætlar að kaupa lottó næstu helgi, ekki kaupa Jókerinn. Aðeins af 10% sölu fer í vinninga þar!