Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Lokaútkall - ákall til Suðurnesjamanna
Miðvikudagur 24. apríl 2013 kl. 11:12

Lokaútkall - ákall til Suðurnesjamanna

Ágætu Suðurnesjamenn.
Laugardaginn 5. apríl sl. frumsýndi Leikfélag Keflavíkur leikritið „Með vífið í lúkunum“. Leikritið hefur fengið frábæra dóma og fólk hreinlega veltist um, fær magakrampa og jafnvel  koma í ljós langþráðir og löngu horfnir magavöðvar af hlátri.  Búið er að auglýsa sjö sýningar en einungis  sex verið sýndar þar sem fella þurfti niður sýningu sl. laugardagskvöld vegna lélegrar mætingar áhorfenda. Nú þegar búið er að sýna þessar sex sýningar hafa þó aðeins tæplega þrjú hundruð manns séð verkið  en til þess að sýningin geri ekki annað en að standa undir kostnaði þá þurfum við alla vega sex hundruð manns. Þetta svæði býr svo vel að eiga öflugt leikfélag, eitt það öflugasta á landinu sem á hverju ári setur á svið tvö leikverk, tekur þátt í flestum þeim uppákomum sem haldnar eru á vegum bæjarins auk þess að halda úti öflugri og ört vaxandi unglingadeild.  Það er því mikil synd að sjá ekki fram á að geta haldið áfram því öfluga starfi sem búið er að byggja upp á liðnum árum.  Að setja sýningu á svið kostar mikla vinnu en við uppsetningu á einu verki liggja að baki a.m.k. sex vikna æfingatímabil þar sem æft er fimm daga vikunnar í 4-6 tíma. Það kostar einnig ágætis pening að ráða leikstjóra, byggja svið, auglýsa verkið o.fl. o.fl.  Þótt Leikfélag Keflavíkur búi yfir frábærri aðstöðu í Frumleikhúsinu og góðum tækjum þá er kostnaður mikill sem fylgir uppsetningum og þar þarf félagið eins og önnur félög að stóla á áhorfendur.  Vinna í leikhúsi er öll unnin í sjálfboðavinnu, bæði hjá þeim sem stjórna félaginu, leika eða koma að uppsetningunni með öðrum hætti. Það að leggja alla þessa vinnu og krafta í verkefnið sem fær svo einhverra hluta vegna ekki áhorf er ferlega fúlt, vægast sagt. Við vitum að verkið er frábært, leikarar fá allir hörku dóma um frábæran leik, allir sem einn og orðið á götunni er einfaldlega það að sýningin sé ekki síðri en þau verk sem atvinnuleikhúsin eru að sýna um þessar mundir. Undirrituð hefur starfað með Leikfélagi Keflavíkur í rúm 30 ár og sjaldan hefur aðsókn verið verri en nú á svo flott leikrit eins og nú er í sýningu. Því biðla ég til Suðurnesjafólks að sýna okkur þann heiður og stuðning að mæta í Frumleikhúsið á föstudagskvöldið 26. apríl kl. 20.00 en þá verður sýningin sýnd í allra síðasta sinn. Um leið vil ég þakka þeim sem þegar hafa komið og séð þessa frábæru sýningu.

Fh. Leikfélags Keflavíkur,
Guðný Kristjánsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024