Lokaorð Sævars Sævarssonar- Í kjölfar kosninga
Frambjóðendur í Reykjanesbæ settu nýtt heimsmet í hræsni í kjölfar sveitastjórnarkosninganna en það tók þá innan við sólarhring að hætta að láta sjá sig skælbrosandi á íþróttakappleikjum. Áhorfendum á heimaleik Keflavíkur gegn ÍBV fækkaði t.d. um 176 frá leiknum áður, sem rekja má beint til þess að frambjóðendur þeirra átta framboða sem buðu fram létu ekki sjá sig. Var það ýmist vegna hefðbundis áhugaleysis, afhroðs í kosningum eða vegna heilsuleysis í kjölfar of mikillar drykkju deginum áður.
Annars verður eftirsóknarvert að búa Reykjanesbæ næstu árin því ef marka má kosningaloforð flestra flokka getum við fljótlega farið að vænta neðangreinds:
Kísilverið hverfur og hér mun engin mengandi stóriðja rísa.
Kennarar munu streyma í skólana í von um eingreiðslur upp á hundruði þúsunda og betri vinnuaðstöðu.
Íþróttir verða aftur settar á oddinn og mun fjárstreymi til félaganna aukast til muna auk þess sem íþróttamannvirki verða bætt og ný rísa.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mun ganga í endurnýjun lífdaga og þar munu skurðstofur loksins opna, heimilislæknar hefja störf og biðstofan mun ei lengur líta út eins og sjúkratjald í flóttamannabúðum í Sýrlandi.
Gamla fólkið, já blessað gamla fólkið mun ekki deyja – það mun lifa.
Ofangreint er auðvitað aðeins lítill hluti þess sem við íbúðar megum vænta í kjölfar kosninga. Það eru forréttindi að búa í Reykjanesbæ en ekki minnka þau forréttindi ef einhver þeirra fjölmörgu loforða sem spruttu fram í aðdraganda kosninga verða efnd. Nú er staðan sú að allt það góða og gegna fólk sem undanfarnar vikur hefur keppst við að vera sýnilegt með loforðasprotann á lofti er nú horfið aftur ofan í fylgsni sín þar sem það undirbýr næsta leik. Spurningin er hins vegar sú, verður næsti leikur efning loforða eða verður það klassíski eftirleikurinn þar sem sparigallinn- og brosið er sett í geymslu og ekki brúkað á ný fyrr en í næstu kosningum?
Spennan magnast - eftirleikurinn verður hið minnsta ekki auðveldur...