Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur- Að hanga í tölvunni
Föstudagur 3. ágúst 2018 kl. 07:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur- Að hanga í tölvunni

Rigningarsumarið mikla 2018 hefur verið okkur foreldrum nokkuð erfitt. „Jæja strákar, hættiði nú að hanga í tölvunni og drífið ykkur út að leika,“ hefur verið algengur frasi, en þó hefur samviskan ekki alltaf staðist mótmælaraddirnar þegar regnið hefur bulið lárétt á gluggunum. Spil, bækur, legó og allskonar dót hefur verið dregið fram í stutta stund í senn, en alltaf virðast þeir enda aftur í tölvunni.

Ég hef haft miklar áhyggjur af þessu og held reglulega ræðurnar um að þetta sé nú alveg ómögulegt og að svona hafi þetta nú ekki verið þegar ég var lítil. Þá lékum við okkur úti frá morgni til kvölds og lásum heilu bókastaflana þegar veðrið var vont. Og urðum þess vegna mjög gáfuð og fróð um alla mögulega hluti. Við hlustuðum líka alltaf á fréttir (höfðum reyndar ekkert val um það þar sem okkur var alltaf sagt að hafa hljóð á meðan fréttatíminn var) og vissum þess vegna allt um það sem var að gerast í heiminum. Ólíkt því sem nú er þar sem mínir menn sitja með heyrnartól og hlusta og horfa bara á það sem þeim þykir skemmtilegt. Þetta getur ekki endað vel, hugsa ég með mér, við endum með heila kynslóð sem er óupplýst, fylgist ekkert með heimsmálunum og hefur bara áhuga á Fortnite og byssuleikjum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

En sannleikurinn er sá að þessi umrædda kynslóð er komin ljósárum lengra en við vorum á þeirra aldri og ég ætti að skammast mín fyrir hversu gamaldags þröngsýnn tuðari ég er orðin. Sem ég hét að verða aldrei.
Börn í dag eru fróðleiksfús og forvitin og soga í sig alls konar upplýsingar héðan og þaðan. Alveg eins og við gerðum. Þau hafa hins vegar það forskot að allar upplýsingarnar eru þeim innan seilingar.
Ég hékk á bókasafninu og las um alls konar. Sonur minn 10 ára hangir í tölvunni og les um alls konar. Þess vegna getur hann þulið upp öll 197 löndin í heiminum og þekkir fána þeirra flestra. Hann getur sagt mér án þess að hugsa hvenær Abraham Lincoln var forseti Bandaríkjanna og númer hvað Obama var. Áhuginn er svo að færast núna yfir í stjörnukerfið og hann getur ekki beðið eftir að það komi myrkur svo hann geti notað nýja stjörnuappið til þess að læra um stjörnumerkin.

Og þrátt fyrir að vera ekki skikkuð til að hlusta á fréttir klukkan 12:20 á hverjum degi fylgjast þau víst með því sem er að gerast. Alla vega 10 ára strákarnir tveir sem sendu mér tölvupóst í dag og spurðu hvort ég væri til í að veita þeim viðtal. Þeir eru með sína eigin fréttastofu á You Tube þar sem þeir framleiða pistla um það sem þeim er hugleikið, t.d. umhverfismál, bíla, internetið og stjórnmál. Og þeir vilja gera frétt um Sundhöll Keflavíkur, heyrðu af því að hugsanlega ætti að rífa hana og finnst það ómögulegt. Þeir fóru að skoða sögu Guðjóns Samúelssonar og sundhallanna hans og ætla sem sagt að fjalla um þetta í næsta þætti.  Algjörlega frábært.

Við þurfum engar áhyggjur að hafa af þessari komandi kynslóð - ég held hún muni spjara sig vel. Þrátt fyrir að eiga það til að hanga í tölvunni.