Lokaorð Ragnheiðar Elínar- Nýtt líf - nýtt hlutverk


Hversu stórkostlegt er það þegar lífið færir manni nýtt hlutverk? Mikilvægt hlutverk sem það er eins gott að maður standi sig í, hlutverk sem skiptir meira máli en flest annað, hlutverk sem leggur á mann þó nokkrar skyldur, hlutverk sem færir manni talsverða ábyrgð, hlutverk sem mun færa manni meiri gleði en mann getur órað fyrir.

Ég er í þessum sporum akkúrat núna og ég er að springa úr hamingju. Þvílík forréttindi. Ég hlakka óendanlega til þess að takast á við þetta nýja hlutverk og er full af þakklæti og staðráðin í því að sinna því eins vel og ég get. Ég kann þetta hlutverk ekki, hef ekki gengt því áður, en ég veit samt að ég get orðið mjög góð í þessu. Þetta mun vonandi krefjast mikillar vinnu, talsverðs tíma á öllum tímum sólarhringsins, kannski einhverra andvökunótta jafnvel, hver veit? Hlutverkinu fylgir stór titill sem maður þarf að leggja talsvert mikið á sig til að standa undir og heilmikil vegsemd. Þetta er æviráðning og þessu hlutverki mun maður aldrei vilja sleppa.

Ég vil yfirleitt fá að stjórna og er vön því að fá mínu fram. Þetta hlutverk mun hins vegar örugglega krefjast þess að ég þurfi að sætta mig við að ráða engu, en hins vegar alltaf þurfa að vera til taks. Ég kem inn í þetta hlutverk aðeins á ská og mun deila því með stórum hópi af frábæru fólki. Það verður ekki vandamál því þetta hlutverk er þannig að það beinlínis kallar á samstarf og laðar fram það allra besta í öllum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ég kannski aðeins of ung til að takast á við þetta hlutverk, en ég hef sem betur fer fjölmargar frábærar fyrirmyndir sem ég get leitað til. Þetta nýja hlutverk breytir öllu og það verður ekkert eins og áður.

Það gerðist eitthvað inni í mér þegar ég fékk símtalið. Hjartað stækkaði og ég gat ekki hætt að brosa. Maðurinn minn sagði mér að það væri fæddur drengur, afastrákurinn væri kominn í heiminn, hraustur og fallegur. Það tísti í honum og heyrði beinlínis í brosinu. Og með þessu nýja lífi kemur þetta nýja fallega hlutverk - ég fæ að vera ein af ömmunum.

Velkominn í heiminn elsku drengur.