Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lokaorð Ragnheiðar Elínar- Foreldrabetrungar
Föstudagur 8. júní 2018 kl. 07:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar- Foreldrabetrungar

Í vikunni var ég við skólaslit drengjanna minna úr Holtaskóla, sá yngri kláraði 4. bekk og þar með yngsta stig grunnskólans og sá eldri útskrifaðist úr 10. bekk og kvaddi þar með skólann sinn. Mamman, sem telur sig vera frekar mikinn töffara svona almennt séð, fékk ryk í augun og klökknaði þegar hún horfði á „litla“ drenginn sinn á þessum miklu tímamótum.

En nú hefst nýr kafli í lífi þessa unga, glæsilega hóps og menntaskólaárin bíða.  Eftirvæntingin fyrir því sem þau eiga í vændum er mikil á sama tíma og það var greinilegt að vinirnir í þessum samheldna og einstaka árgangi munu koma til með að sakna hvers annars nú þegar leiðir skilja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég hef auðvitað þekkt þessa krakka í mörg ár, en þar sem ég horfði á hópinn á þessari mikilvægu stund sannfærðist ég enn frekar um það sem ég hef þó vitað lengi, og það er það að börnin okkar eru einfaldlega foreldrabetrungar. Það er eitthvað dásamlegt yfirbragð yfir þeim, þau eru sterk og sjálfsörugg, óhrædd við að sýna hvort öðru kærleika og virðingu og líta á heiminn allan sem þeirra leikvang.

Sem foreldri væri auðvitað nærtækast að líta til þess hverjir það eru sem eru að ala þessi börn upp til þess að finna skýringar á því hversu einstaklega vel heppnuð þau eru! En þó svo að við séum eflaust öll ágæt þarf að sjálfsögðu meira til og efst á þeim lista er æskulýðs- og skólastarfið hér í Reykjanesbæ.

Það er hvorki sjálfgefið né sjálfsagt að búa við svo öfluga grunnskóla eins og við höfum hér í bæ og sannarlega hefur það ekki gerst af sjálfu sér. Árangur grunnskólanna í Reykjanesbæ hvort sem það varðar nám, íþróttastarf eða tónlist er framúrskarandi og það er vegna þess að fyrir mörgum árum var tekin ákvörðun um að þannig skyldi það verða. Stefnan var sett, markmiðin voru háleit og í góðu samstarfi bæjaryfirvalda og okkar góða skólafólks var unnið markvisst að því að gera alltaf betur. Ég þekki auðvitað Holtaskóla best – var þar sjálf og svo núna drengirnir mínir tveir og veit því vel hversu frábært skólastarfið er þar. 

Og sem móðir og íbúi hér í Reykjanesbæ langar mig að nota þetta tækifæri og þakka tveimur einstaklingum fyrir mig og mína og fyrir þeirra þátt að gera skólastarf í Reykjanesbæ framúrskarandi. Þessir tveir herramenn, Árni Sigfússon og Eðvarð Þór Eðvarðsson, eru báðir fremstir meðal jafningja, sannir leiðtogar og hvor um sig á ákveðnum tímamótum. Þakkir til ykkar beggja fyrir ykkar framlag og skýru sýn – æska landsins hefur sjaldan verið flottari!