Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar- Sjálfstæði Suðurnesja
Föstudagur 23. mars 2018 kl. 06:00

Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar- Sjálfstæði Suðurnesja

„Suðurnesin sitja ekki við sama borð og önnur svæði á landinu þegar kemur að fjárveitingum ríkisins. Það er alveg sama hvert litið er, Heilbrigðisstofnunin, Fjölbrautaskólinn, vegakerfið (Reykjanesbrautin og Grindavíkurvegurinn), lögreglan og svo mætti lengi telja, búa öll við mun lægri fjárframlög pr. íbúa en annars staðar á landinu.“ Þetta ritaði okkar ágæti bæjarstjóri Kjartan Már Kjartansson á fésbókarsíðu sína í vikunni og tilefnið var lækkun fjárframlaga ríkisins til Markaðsstofu Reykjaness 2018 á meðan aðrar markaðsstofur landsins hafa hækkað í framlögum.

Afsökun ríkisin var sú að vegna nálægðar við flugvöllinn þurfum við ekki að markaðssetja Suðurnesin, þetta kemur bara að sjálfum sér álykta þessir snillingar. Ég hef skrifað um þetta áður og hljóma eins og rispuð plata en þetta er enn ein köld tuskan í andlit okkar Suðurnesjamanna frá ríkisvaldinu. Spurningin er hvenær sé komið nóg? Það er alveg sama þótt ráðamenn séu boðaðir hingað á fundi, ekkert batnar og í raun og veru bara versnar. Þingmenn svæðisins virðast svo ekkert vægi hafa alveg sama í hvaða flokk þeir eru. Samstaða okkar hér fyrir sunnan er heldur ekkert svo sérstök, það tuðar hver í sínu horni en fátt markvert gerist. Þann 11. desember árið 2000 lokaði hópur Suðurnesjamanna Reykjanesbraut í þrjá og hálfan tíma til þess að vekja athygli á öryggismálum á brautinni og að flýta framkvæmdum við tvöföldun hennar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðgerðirnar voru umdeildar á meðal ráðamanna en hér á meðal fólksins á svæðinu var víðtækur stuðningur enda höfðu yfirvöld hunsað ábendingar og kröfur fólksins alltof lengi. Þegar það kom svo að enn einu hörmulega banaslysinu fékk fólk algjörlega nóg og ráðist var í þessar róttæku mótmælaaðgerðir. Þær skiluðu þó sínu og ráðamenn virtust rumska aðeins við sér og urðu að bregðast við. Reyndar núna 18 árum seinna hefur þó ekki ennþá verið lokið við að tvöfalda brautina sem er með algjörum ólíkindum.

Þrátt fyrir það þá er það mín skoðun að þessi tiltekna mótmælaaðgerð hafi skilað okkur hvað mestu í þessari áralöngu baráttu okkar Suðurnesjamanna gegn vanrækslu ríkisins hér á okkar svæði. Það er þörf á róttækum aðgerðum núna að mínu mati til þess að senda ráðamönnum skýr skilaboð um að þessi vanræksla í garð okkar sé ekki liðin mikið lengur. Efa það reyndar að lausnin núna sé að loka brautinni en ætla hér með að skora á sveitarstjórnarfólkið okkar og þingmenn svæðisins í að sameina krafta sína (vinna saman svona einu sinni) og mótmæla þessu kröftuglega og krefjast úrbóta. Það er gríðarlegur vöxtur á svæðinu okkar og það er íslenska hagkerfinu gríðarlega mikilvægt, ríkið þarf að sýna það í verki að það séum við íbúarnir líka.

Ef þetta gengur ekki þá ættu Suðurnesin í raun að sækja bara um sjálfstæði frá íslenska ríkinu.  Svona lítil Katalónía. Við tuðum um það sama ár eftir ár, hversu mikið á okkur hallar en nú er kominn tími á einhverjar aðgerðir. Boltinn er hjá sveitarstjórnarfólkinu okkar og þingmönnum, kannski ekki jafn róttækar aðgerðir og á brautinni 11. desember árið 2000 en eitthvað sem ráðamenn taka eftir og hlusti á okkur í eitt skipti fyrir öll.