Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur - 18
Föstudagur 27. apríl 2018 kl. 06:00

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur - 18

Með aldrinum kemur þroski og viska, vonandi. Stundum vildi ég samt óska þess að ég hefði vitað allt sem ég veit núna þegar ég var 18 ára. Ég man þegar ég var 18. Endalaus tækifæri. Alltaf spenningur og gaman að vera til. Nóg framundan. Þurfti ekki margar gulrætur til. Maður gat allt og vissi allt. Með sitt „sjitt“ þokkalega á hreinu.

Margt af þessu er satt og rétt en ég vissi ekki þá hvað ég vissi lítið. Kannski var það blessun. Jú það var blessun. Við kæmumst sennilega ekki í gegnum lífið ef við vissum allt á unga aldri. Spenningurinn breytist nefnilega í kvíða með aldrinum. Ég veit ég hljóma frekar þunglyndislega en ég meina þetta á fallegan hátt.
Varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að stunda yoga heila helgi með góðri vinkonu. Alla helgina. Þegar ég var 18 ára hefði ég aldrei látið mér detta í hug að mæta í yogatíma. Hvað þá að eyða heilli helgi í það.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með aldrinum hefur maður þroskast eins og gengur og gerist. Sem betur fer og auðvitað. Ég man eftir þeirri stundu þegar ég hætti að hlakka brjálæðislega til að fara til útlanda. Man og undraðist yfir því hvað hafi eiginlega gerst. Lífið gerðist. Með aldrinum verður maður ekki eins ódauðlegur, hræðumst meira, óttumst meira og kvíðum meira fyrir því ókomna. Kvíðum meira að segja fyrir því hvernig ferðin erlendis muni fara í staðinn fyrir hreina tilhlökkunina þegar maður var 18. Kvíðum stundum fyrir mannamótum.  Ég hélt ég væri ein um þetta og það væri mögulega eitthvað að mér.

En annað hefur komið á daginn. Það er ekkert að mér. Kvíði er náttúrulegt viðbragð sem hendir okkur öll á mismunandi tímum og með mismunandi hætti. Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er að við erum að sjá mikla aukningu í kvíða hjá yngri aldurshópum. Langir biðlistar hafa myndast hjá barna- og unglingasálfræðingum. Þessir biðlistar myndast þrátt fyrir að heilbrigðiskerfið niðurgreiði ekki slíka þjónustu. Það er ódýrara til skemmri tíma að ráðast ekki á rót vandans heldur tækla bara einkennin með róandi, örvandi og kvíðastillandi lyfjum. Ég hef áhyggjur af þessari þróun. Þetta er skammsýni.

En ekki hafa áhyggjur kæri lesandi. Þrátt fyrir að vera ekki 18 lengur þá er ég mjög spennt fyrir lífinu, hamingjusöm og já ennþá með mitt „sjitt“ þokkalega á hreinu. Er þó ekki sama manneskjan og ég var 18 ára. Sem betur fer, þrátt fyrir að stundum vildi ég óska þess að geta verið bara meira í núinu eins og ég var þá. Áhyggjulaus. Notið þess sem koma skyldi. Hlæjandi. Svona er lífið og sem betur fer.