Aðsent

Lokaorð  Ragnheiðar Elínar Árnadóttur- Ég og bæjarmálin
Föstudagur 18. maí 2018 kl. 06:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur- Ég og bæjarmálin

Ég var lengi í stjórnmálum, hafði af þeim atvinnu í tæplega 20 ár, fyrst sem aðstoðarmaður ráðherra, svo þingmaður og ráðherra. Áhugi minn lá fyrst og síðast í landsmálunum og þar fann ég minni pólitísku hugsjón farveg - þar barðist ég af alefli fyrir þeim verkefnum og stefnumálum sem ég brann fyrir og minn flokkur. Ég fylgdist auðvitað alltaf vel með sveitarstjórnarmálum, enda eru þau gríðarlega mikilvæg og snerta fólk með beinum hætti í nærsamfélaginu á hverjum stað. Ég vann með fólki úr öllum flokkum alls staðar í kjördæminu fyrir bættum hag íbúa á hverjum stað, en hef aldrei tekið beinan þátt í bæjarstjórnarkosningum ef undan er skilið heiðursætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í síðustu kosningum.

Nú er ég hins vegar hætt beinni stjórnmálaþátttöku og er komin í önnur verkefni. Það þýðir að ég hef meiri tíma til að vera mamman, eiginkonan, vinkonan og dóttirin...og íbúinn í Reykjanesbæ. Og þá fer maður kannski meira að huga að nærsamfélaginu og gefa því meiri gaum sem þar er að gerast. Það var einmitt þess vegna sem lítil auglýsing um íbúafund þann 3. janúar vakti athygli mína. Íbúafundurinn var m.a. til þess að kynna breytingu á deiliskipulagi sem fól í sér að gamla Sundhöllin í Keflavík þyrfti að víkja fyrir íbúðablokkum. Ég ákvað að mæta til þess að kynna mér málið og í framhaldinu gerði ég athugasemd við tillöguna. Framhaldið þekkja flestir, í ljós kom að ég var aldeilis ekki ein um þá skoðun að þessa sögufrægu byggingu skyldi varðveita. Og þá fór í gang ferli sem enn sér ekki fyrir endann á.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég hef farið fyrir stórum hópi fólks sem deilir þessari skoðun. Ég hef stundum kallað þetta þráhyggju - en við erum öll þeirrar skoðunar að það væri óafturkræft stórslys ef þessi glæsilega gamla höll, sem byggð var af fátækum íbúum bæjarins af gríðarlegum metnaði og hugsjón, yrði rifin. Þessi hópur kemur úr öllum áttum, úr öllum stjórnmálaflokkum og er ekki endilega sammála um neitt annað en þetta mál. Enda hefur aldrei verið talað um stjórnmál í þessum hópi.

Þetta er ekki pólitískt mál. En þetta snýst um verklag og það er kannski pólitík í því. Og þá komum við að sveitarstjórnarmálunum og því að það eru að koma kosningar. Fyrir síðustu kosningar var mikil áhersla á íbúalýðræði, að rödd fólksins fengi að heyrast, og að tekið yrði tillit til athugasemda íbúa. Nú heyrist „hættum ruglinu“ og „sýnum áræðni í íbúalýðræði“ frá þessum sömu aðilum.

Ég er alveg til í það.  Og þá að áhuga mínum af sveitarstjórnarmálum. Hann hefur sannarlega aukist þessa síðustu mánuði og ég skal viðurkenna hér að ég er orðin asskoti mikill sérfræðingur í öllu sem viðkemur skipulagsmálum, stjórnsýslu og húsafriðun. Og ég mun áfram berjast af öllu alefli fyrir því að þetta hús verði aldrei rifið - og trúið mér - við höfum ýmis verkfæri enn í kistunni. Og fyrir þessar kosningar hef ég lúslesið stefnuskrárnar - það er enn verið að tala um að íbúar eigi að eiga síðasta orðið.  Getum við treyst því?

P.s. Og fyrir þá sem eru enn að velta því fyrir sér. Nei, ég er ekki bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. Ég er íbúi í Reykjanesbæ og hollvinur Sundhallarinnar.