Þorrablót

Lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar

Nú er Þorrinn genginn í garð með tilheyrandi kulda og snjókomu.  Keflvíkingar og Njarðvíkingar hafa þjófstartað Þorranum með einstaklega vel heppnuðum Þorrblótum í íþróttahúsum félaganna. Taumlaus skemmtun og fjáröflun. Bæði félögin hafa haft þann sið að gera upp árið með annál. Sá keflvíski er ávallt birtur á netinu og stundum valdið slíkum deilum að menn hafa hótað brottflutningi úr sveitarfélaginu. Leynd hefur hinsvegar hvílt yfir þeim njarðvíska og sögusagnirnar því mjög líflegar um hvað þar hefur í raun farið fram enda áhorfendur flestir orðnir vel við skál þegar sýningin fer fram. Kannski að höfundar Njarðvíkur-annáls leyfi íbúum hinum megin bæjarmarkanna að njóta með einn daginn.

Þrátt fyrir vel heppnuð þjófstartsblót í Reykjanesbæ er stærsta blótið framundan utar á Reykjanesskaganum. Uppselt var á blótið áður en það fékk réttnefni því um er að ræða fyrsta Þorrablót Suðurnesjabæjar. Það verður eitthvað fjörið á þeim bænum. Fátt betra en að innsigla sameiningu á Þorrablóti.

Það væri óskandi að fyrr en seinna yrðu Suðurnesjabær og Reykjanesbær eitt. Byrja bara með risablóti. Fara á herðablöðin saman og enda með sameinað fjórða stærsta sveitarfélag landsins.

Hægt væri að nota nafn sem aðrir Íslendingar nota fyrir svæðið. Keflavík.