Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lögreglumenn senda þingmönnum Suðurkjördæmis opið bréf
Mánudagur 26. september 2011 kl. 21:24

Lögreglumenn senda þingmönnum Suðurkjördæmis opið bréf

Opið bréf til þingmanna Suðurkjördæmis eftir félagsfund Lögreglufélags Suðurnesja sem haldinn var þann 26. september 2011.

Þann 26. september 2011 var haldinn fjölmennur félagsfundur félagsmanna Lögreglufélags Suðurnesja. Tilefni fundarins var að fara yfir niðurstöðu gerðadóms vegna kjaradeilu lögreglumanna við ríkisvaldið sem var birt þann 23. september s.l. Fram að þeim tíma höfðu lögreglumenn verið kjarasamningslausir í um 300 daga.

Þó svo að veik kjaraleg staða lögreglumanna gagnvart viðmiðunarstéttum, t.d. tollvörðum, sé viðurkennd í geinargerð gerðadóms er ákveðið að virða að vettugi fyrra gerðadómsfordæmi. Þessi niðurstaða er lögreglumönnum algjörlega óásættanleg og er með öllu óskiljanlegt að þessum viðmiðunarstéttum sé svo bersýnilega mismunað. Þar að auki voru lögreglumönnum sendar kaldar kveðjur í niðurstöðu gerðadóms þegar fulltrúi ríkisvaldsins í dómnum lét bóka á eftir sér að hann greiddi atkvæði með afstöðu formanns dómsins þegar áralöng venja er að sitja hjá, en með því sýndi fulltrúinn engan vilja til að komast að samkomulagi við lögreglumenn. Þar með voru lögreglumenn þvingaðir til að beygja sig undir niðurstöðuna og lúta henni hvort sem þeim líki betur eða verr.

Þó svo að það sé grundvallarréttur hverrar stéttar að sækja sér kjarabætur með verkafallsrétti að vopni njóta lögreglumenn ekki slíks réttar, m.a. vegna öryggissjónarmiða og eðli starfsins. Nú er svo komið að lögreglumenn upplifa að þeir eru á krossgötum þar sem þeim virðast vera allar bjargir bannaðar til að sækja sér löngu verðskuldaða kjaraleiðréttingu. Við slíkar aðstæður erum við hrædd um hvað geti gerst í kjölfarið. Undanfarnar vikur hefur samtakamáttur lögreglumanna aldrei verið sterkari og ljóst er að þeir muni ekki taka óréttlátri niðurstöðu gerðadóms þegjandi.

Virðingarfyllst
Stjórn Lögreglufélags Suðurnesja

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024