Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Lögbrot félagsþjónustu Reykjanesbæjar
  • Lögbrot félagsþjónustu Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 15. maí 2014 kl. 15:18

Lögbrot félagsþjónustu Reykjanesbæjar

– Róbert Sigurðarson skrifar

Þann 11. apríl sl. birtist frétt á vefmiðlinum Vísir.is sem bar fyrirsögnina ,,Reykjanesbær tapar tæpum milljarði“.  Í umræddri frétt er útskýrt hver ástæðan er fyrir tapinu, en þar er stærsti liðurinn tap Reykjaneshafnar.  Þetta mikla tap hafnarinnar var þó ekki það sem vakti mesta athygli mína við lestur fréttarinnar, því einnig er nefnt í henni að hluti af þessu tapi sveitarfélagsins sé tilkominn vegna þess að félagsþjónustan fór 152 milljónir króna umfram það sem áætlað hafði verið til málaflokksins.  Já, heilar 152 milljónir króna!  Ég gat ekki annað en hlegið með sjálfum mér þegar ég las þetta og hafði um leið í huga slæleg vinnubrögð félagsþjónustunnar sem mér er orðið kunnugt um á síðustu mánuðum.  Þetta kom alls ekki á óvart.  Hvaða slælegu vinnubrögð er ég svo að tala um?  Reyndar eru þetta ekki eingöngu slæleg vinnubrögð, heldur einnig lögbrot að mínu mati.  Ég veit vel að þetta eru alvarlegar ásakanir, en ég get rökstutt mál mitt.

 
Á sl. ári varð mér kunnugt um að félagsþjónustan, sem var að greiða aðila fjárhagsaðstoð, væri einnig að greiða viðkomandi húsaleigubætur.  Það er svo sem ekkert bannað að félagsþjónustan greiði bæði fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur til sama aðila, en til að fá húsaleigubætur þá þarf að uppfylla ákveðin skilyrði.  Þessi skilyrði er að finna í lögum nr. 138/1997, með síðari breytingum, og nefnast lög um húsaleigubætur.   Í 6. grein laganna eru tekin fram þau atriði sem girða fyrir rétt til húsaleigubóta.  Í öðrum lið greinarinnar er nefnt að ef aðili nýtur vaxtabóta, þá á hann ekki rétt á húsaleigubótum.  Um þetta snýst einmitt heila málið.  Aðilinn sem ég tilkynnti um naut vaxtabóta,  en fékk engu að síður greiddar húsaleigubætur.

Lögbrot var ekki það fyrsta sem kom upp í huga mér á þessum tímapunkti, því ég taldi að þarna hefðu frekar verið gerð einhver mistök, en skila þarf inn ýmsum gögnum til félagsþjónustunnar þegar sótt er um aðstoð.

Því ákvað ég að tilkynna þetta og sendi tölvupóst til Heru Ó. Einarsdóttur, sem er bæði forstöðumaður stoðdeildar fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar og staðgengill félagsmálastjóra.  Ég sendi tölvupóstinn í júlí sl. og þakkaði Hera mér erindið og sagði að þetta yrði tekið fyrir á fundi áfrýjunarnefndar.

Í mars sl. bárust mér nýjar upplýsingar um það að félagsþjónustan hafi haldið áfram að greiða aðilanum húsaleigubætur, þrátt fyrir tilkynninguna sem ég sendi í tölvupósti.  Þá rann upp fyrir mér að sennilega hefur aldrei verið um nein mistök að ræða við greiðslu húsaleigubótanna í upphafi, eins og ég hafði talið.  Þarna er félagsþjónustan að mínu mati búin að vera að fremja vísvitandi lögbrot frá upphafi á greiðslum húsaleigubóta til aðilans.  Nýlega sendi ég Hjördísi Árnadóttur, félagsmálastjóra, erindi þar sem ég spurðist fyrir um hvaða fólk sæti í áðurnefndri áfrýjunarnefnd.  Fékk ég þau svör að þar sætu tveir aðilar, einn frá meirihluta og einn frá minnihluta.  Þá sæti einnig fundi nefndarinnar  forstöðumaður stoðdeildar sem legði öll mál fyrir nefndina.

Forstöðumaður stoðdeildar er einmitt Hera Ó. Einarsdóttir, sem ég sendi upphaflega tilkynninguna til.  Það er því tvennt í stöðunni.  Annað hvort hefur tilkynningunni minni verið stungið undir stól strax í upphafi og málið aldrei tekið fyrir, eða þá að málið hefur verið tekið fyrir og nefndin vísvitandi ákveðið að aðhafast ekkert.  Strax í upphafi þá velti ég fyrir mér hvort að eitthvað yrði aðhafst í málinu þrátt fyrir tilkynninguna mína og sendi því afrit af tölvupóstinum til bæjarstjóra og félagsmálastjóra.  Það virðist ekki hafa skipt neinu máli.  Þetta eru hreint óskiljanleg vinnubrögð og það er alveg ljóst að það þarf heldur betur að fara ofan í saumana á vinnubrögðum félagsþjónustu Reykjanesbæjar.  Í hvað fóru þessar 152 milljónir nákvæmlega?

Ég sem bæjarbúi geri þá kröfu að þeir sem hafa heimild til að taka ákvarðanir varðandi útdeilingu fjármuna úr sjóðum sveitarfélagsins, séu starfi sínu vaxnir og fari að lögum.  Ef þeir geta það ekki, þá eiga þeir ekkert erindi sem starfsmenn sveitarfélagsins.

 
Skyldi málið sem ég hef rakið hér aðeins vera toppurinn á ísjakanum?  Er skjólstæðingum félagsþjónustunnar mismunað?  Fá sumir meiri aðstoð en aðrir?  Það er allavega deginum ljósara að félagsþjónusta Reykjanesbæjar, með forstöðumanninn í fararbroddi, fer ekki að lögum.  Það er því ansi mikil hræsni að á heimasvæði félagsþjónustunnar á vefsíðu sveitarfélagsins skuli vera talin upp þau lög sem að félagsþjónustan vinni eftir, en þar eru einmitt nefnd lögin um húsaleigubætur. 
 
Róbert Sigurðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024