Loforð sem hægt er að standa við
Í grundvallaratriðum snúast þessar kosningar um það hvort fylgja eigi jafnaðarstefnu Samfylkingarinnar og byggja upp velferðarkerfið eða ekki og hvort við viljum ábyrg ríkisfjármál eða óraunhæf loforð.
Samfylkingin tók við stjórnartaumunum þegar Ísland var á barmi gjaldþrots, rúið trausti, halli ríkissjóðs var stórkostlegur og fall krónunnar og verðbólgan höfðu brennt upp eignir. Við náðum saman fjárlagagatinu á aðeins 4 árum sem er afrek. Um leið og við stöðvuðum skuldasöfnun ríkissjóðs forgangsröðuðum við í þágu velferðar og þeirra sem minna hafa handa á milli.
Nú þegar við jafnaðarmenn höfum tekið til eftir aðra er mikilvægt að við fáum stuðning til að byggja upp á nýju kjörtímabili. Samfylkingin er ábyrg og henni má treysta til að skapa öruggt og gott samfélag.
Staðreyndin er sú að:
Atvinnuleysi hefur minnkað um helming frá 2009. Þúsundir ungra atvinnuleitenda fengið skólavist í gegnum átakið Nám er vinnandi vegur.
Tækniþróunarsjóður var stórefldur til að skapa ný störf og einnig framkvæmdarsjóður ferðaþjónustunnar.
Rammalöggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga og endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar til fyrirtækja hefur komið mörgum fyrirtækjum til góða.
Við ætlum að:
Lækka tryggingagjaldið og fjölga störfum.
Koma á nýjum fjárfestingalánasjóði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
Tryggja sjávarbyggðum hlutdeild í veiðleyfagjaldinu.
Setja tækni- og verkmenntun í forgang í skólakerfinu.
Ljúka jafnlaunaátaki hjá hinu opinbera.
Staðreyndin er sú að:
60% þjóðarinnar borgar hlutfallslega minni skatta eða jafn mikla skatta og fyrir hrun. Þeir sem betur standa greiða meira til samfélagsins. Persónuafsláttur hefur hækkað um 45% frá 2007 og er verðtryggður frá ársbyrjun 2012.
Barnabætur hafa hækkað um 30% og stuðningur við barnafjölskyldur verður alls 11 ma.kr. á árinu 2013.
Samfylkingin hefur ráðist í byggingu 12 hjúkrunarheimila fyrir aldraða um land allt.
Endurreisn fæðingarorlofssjóðs er hafin og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna lögfestur.
Jafnrétti kynjanna hefur hvergi mælst meira en á Íslandi undanfarin 4 ár.
Við ætlum að:
Láta börnin njóta forgangs. Gera gjaldfrjálsar tannlækningar barna að 18 ára aldri að veruleika, efla starfsemi Barnahúss og forvarnir gegn ofbeldi.
Koma á einu húsnæðiskerfi fyrir alla, fjölga námsmannaíbúðum og efla leigumarkað.
Staðfesta nýjar, einfaldari og betri almannatryggingar og bæta rétt lífeyrisþega.
Treysta grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.
Staðreyndin er sú að:
Hrun gjaldmiðilsins árið 2008 setti fjárhag heimilanna í uppnám. Skuldir hafa verið niðurfærðar um 300 ma.kr. á kjörtímabilinu. 12 þúsund heimili hafa notið góðs af lækkun skulda. Þær eru nú í sömu stöðu og árið 2006.
Rúmlega 100 ma.kr. hafa runnið til fjölskyldna í gegnum barna- og vaxtabætur.
Húsleigubætur hafa hækkað og dregið hefur úr tekjuskerðingu þeirra.
Sérstakar vaxtabætur eru komnar á fyrir íbúðaeigendur með lánsveð.
Við ætlum að:
Koma á Nýjum húsnæðisbótum fyrir alla. Þeir sem leigja fá jafn góðan stuðning og þeir sem kaupa.
Koma 2.000 nýjum leiguíbúðum á markað í samstarfi við sveitarfélög og búseturéttarfélög.
Sjá til þess að bankar fjármagni sanngjarna lækkun skulda þeirra sem keyptu á versta tíma fyrir hrun.
Ljúka afnámi stimpilgjalda og leggja af uppgreiðslugjöldin.
Koma á stöðugleika og losa heimili og fyrirtæki undan bólum og verðbólguskotum. Það bætir kjörin mest.
Jöfnuður og réttlæti er grunntónninn í stefnu Samfylkingarinnar. Sundrung og margir smáflokkar munu veita sérhagsmunaöflunum undirtökin eftir kosningar.
Aðeins samstaða skilar okkur árangri.
Veljum öruggt og gott samfélag - kjósum Samfylkinguna!
Oddný G. Harðardóttir,
1. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi