Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Loðnubrestur og gjaldþrot WOW skekja landið
Föstudagur 5. apríl 2019 kl. 07:00

Loðnubrestur og gjaldþrot WOW skekja landið

Það skiptast á skin og skúrir í íslensku samfélagi, ekki ólíkt veðurfarinu sem getur verið risjótt. Útsynningurinn stendur á landið og dælir á okkur éljagangi sem bítur í andlitið svo svíður undan. En öll él stytta upp um síðir og við erum fljót að gleyma éljaklökkunum þegar sólin brýtur sér loks leið í gegnum þungt skýjaþykknið.

Loðnubrestur
Það voru ekki góðar fréttir þegar loðnan lét ekki sjá sig og hefur það gríðarleg áhrif í mörgum sveitarfélögum og þar eru áhrifin hvað mest í Vestmannaeyjum og Höfn ef við höldum okkur innan kjördæmisins. Loðnan og uppsjávarveiði hefur verið lungað í afkomu fyrirtækja, sjómanna og landverkafólks á þessum stöðum um árabil sem nú situr uppi með sárt enni. Fyrirtækin hafa byggt upp gríðarlega metnaðarfullar vinnslur og ný skip sem geta afkastað miklu og skapa mikil verðmæti sem nú skila sér ekki í bæjar- eða ríkiskassann. Það er margbúið að fara yfir það tjón í tölum og öllum kunnugt hvað afleiðingarnar eru þungbærar. Viðbrögðin við þessu eru rannsóknir á loðnustofninum sem við vitum allt of lítið um í breytilegu loftslagi og hlýnun sjávar. Það var fyrst árið 1978 sem einhverjar rannsóknir hófust á loðnustofninum en þær hafa bæði verið litlar og trúlega ekki nægjanlega markvissar vegna fjárskorts. Rannsóknarskip Hafró eru bundinn við bryggju of marga mánuði á ári og útgerðin sjálf hefur þurft að senda veiðiskipin til loðnuleitar. Í ár er reiknað með að kostnaður útgerðarinnar vegna þeirra framlaga nemi um 126 m.kr. Við verðum að bregðast fljótt við og auka fjárlög til Hafró til að rannsaka loðnuna og einnig þarf humarinn meiri rannsóknir en stofninn liggur nú við hrun og lítil sem engin veiði leyfð í ár. Hrun humarveiða hefur mikil áhrif í veiðum og vinnslu á Höfn, Eyjum og Þorlákshöfn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gjaldþrot WOW
Gjaldþrot WOW er svakalegt áfall fyrir ferðaþjónustuna og sérstaklega fyrir þá sem misstu atvinnuna en ekki eru öll kurl komin til grafar í því máli og við munum ekki sjá fyrir endann á þeim hörmungum strax. Mikilvægasta verkefnið er að við tökum utan um hvert annað og leggjum okkur fram um að styðja við bakið á þeim sem eiga um sárt að binda. Höggið á fjölskyldurnar er mikið, ferðaþjónustan skelfur og við munum ekki sjá hver endanleg dominó-áhrifin verða fyrr en síðasti teningurinn er fallinn.

Hundruðir munu missa atvinnuna til skemmri tíma en það er stærra áfall en áður hefur þekkst hér á landi og því mikilvægt að við endurskoðum þær áætlanir sem snúa að mannfrekum framkvæmdum og geta orðið til þess að draga úr högginu og vinnufúsar hendur verði fljótlega kallaðar til starfa. Þar ber ríkið mikla ábyrg ekki síður en sveitarfélögin sem skoða líka sínar áætlanir.

Styrkja innviði á Suðurnesjum
Á Suðurnesjum þar sem mesta áfallið dynur yfir verðum við að styrkja innviðina, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þarf stuðning, Fjölbrautaskólinn, Keilir og Miðstöð símenntunar. Sveitarfélögin eru að bregðast hárrétt við aðsteðjandi vanda að mínu mati og ég sé ekki betur en ráðherrar og ríkisstjórn séu að gera slíkt hið sama. Sveitarstjórnir á Suðurnesjum hafa þegar komið saman með þingmönnum og lykilstarfsfólk er komið í startholurnar og mun halda utan um þau stóru verkefni sem eru fram undan. Við getum treyst þeim öfluga hópi fyrir stóru verkefni og þungu í forystu fyrir okkur öll. Félagsmálaráðherra hefur þegar komið í Reykjanesbæ til að kynna sér stöðuna af eigin raun þegar mesta álagið er og hefur þegar tilnefnt tengilið milli ráðuneytis og Suðurnesja og það sama má segja um menntamálaráðherra sem hefur kynnt sér viðbrögð í skólum á Suðurnesjum sem er afar mikilvægur þáttur í forvörnum fyrir heimilin. Forsætisráðherra hefur hitt sveitarstjórnarmenn af Suðurnesjum en vandinn þar er yfirþyrmandi mikill og þarfnast sértækra aðgerða og fjármálaráðherra og ferða- og nýsköpunarráðherra eru að skoða aðgerðir á svæðinu og fyrir ferðaþjónustuna í landinu.

Stöndum betur en áður
Þjóðarbúið hefur sjaldan ef nokkru sinni verið betur undirbúið áföllum en einmitt nú, þó það sé ekki huggun harmi gegn þegar til skemmri tíma litið en þá skiptir sú staða ríkissjóðs lykilatriði í uppbyggingunni fram undan. Við Íslendingar höfum áður lent í skakkaföllum, eldgos og hrun fiskistofna en alltaf náð að rísa upp aftur. Það gerum við líka í þetta sinn og það eru allir að gera sitt besta og við ætlum öll að ganga í takt þangað til vandinn er að baki.

Ásmundur Friðriksson,
Alþingismaður.