Ljósanótt er hápunktur sumarsins
Sólríkasta sumri í manna minnum er við það að ljúka og ætlum við í Reykjanesbæ að klára það með stæl eins og okkur einum er lagið. Þrettánda Ljósanóttin er handan við hornið og allt komið á fullt við undirbúning hennar. Ekkert verður gefið eftir til þess að halda Ljósanóttina sem fjölbreyttasta og glæsilegasta sem endranær. Við eigum mikið og gott úrval af listafólki á öllum sviðum og þessi hópur hefur vaxið stöðugt frá fyrstu hátíðinni og er árið í ár engin undantekning þar á. Velunnarar hátíðarinnar, fyrirtækin, félögin og einstaklingarnir á svæðinu, standa við sitt og fyrir það erum við mjög þakklát, enda ógerlegt að halda jafn glæsilega hátíð án þeirra.
Ljósanótt er menningar- og fjölskylduhátíð, en hún er líka tækifæri til atvinnusköpunar á margan hátt. Listamenn, handverksfólk og margskonar söluaðilar geta nýtt sér tækifærið til þess að kynna sig og sína vöru í þessa fjóra daga sem hátíðin stendur yfir. Fólksfjöldinn tvö- ef ekki þrefaldast á þessum dögum og markhópurinn því ansi stór. Hægt er að leiga aðstöðu í tjöldum á aðalsvæðinu á Hafnargötunni, nú eða koma með sitt eigið tjald, bás eða vagn. Því fleiri því betra. Veitingafólk ætti sérstaklega að nýta sér þetta tækifæri þar sem allir þurfa að borða og þau fyrirtæki sem fyrir eru anna ekki eftirspurn.
Ég er þeirrar skoðunar að Ljósanótt sé besta kynningin á okkar frábæra bæjarfélagi. Allt of fáir leggja leið sína eftir Reykjabesbrautinni til að heimsækja okkur án tilefnis, en þegar tilefnið er jafn stórkostlegt og Ljósanótt þá kveður við annan tón. Orðspor hátíðarinnar er mjög jákvætt og þar skipum við bæjarbúar veigamesta hlutverkið. Verum nú dugleg að bjóða gestum frá öðrum bæjarfélögum á hátíðina okkar. Samskiptamiðlarnir geta nýst vel, en best er orð úr munni og eigum við að nýta okkur öll tækifæri til að auglýsa hvað við höfum upp á að bjóða. Einfaldast er að benda fólki á nýjan vef Ljósanætur, ljosanott.is, þar inni eru allar hagnýtar upplýsingar, sölumál og viðburðirnir í tímaröð. Klárlega eitthvað fyrir alla.
Nú tökum við höndum saman í þrettánda skiptið og njótum þess sem Ljósanótt og Reykjanesbær hefur upp á að bjóða. Hátíðin hefst formlega fimmtudaginn 30. ágúst kl.11:30 með hefðbundinni blöðrusleppingu við Myllubakkaskóla, en söngveislan Með blik í auga II -Gærur, glimmer og gaddavír þjófstartar á miðvikudagskvöldinu 29. ágúst og er hægt að kaupa miða á midi.is. Annars eru langflestir viðburðirnir án aðgangseyris svo allir geta verið með og alltaf lang skemmtilegast að hitta vini og vandamenn á röltinu um bæinn í góða veðrinu sem við erum að sjálfsögðu búin að panta !
Velkomin á Ljósanótt og góða skemmtun.
Björk Þorsteinsdóttir
formaður Menningarráðs Reykjanesbæjar