Ljósalagið 2008: Hafa skal það sem sannara reynist
Í Fréttablaðinu laugardaginn 2. ágúst sl. var birt frétt undir yfirskriftinni “Ljósalagið veldur óánægju”.
Vegna þessar fréttar vil ég að eftirfarandi komi fram:
1. Haft er eftir einum þátttakanda í keppninni um Ljóslagið 2008 að þau lög sem komust áfram i 5 laga úrslit hafi verið komin á netið morgunin eftir að skilafresti lauk.
Þetta er rangt. Skilafrestur rann út 14. júlí sl.. Dómnefnd kom saman um miðjan dag þann 15. júlí og skilaði af sér niðurstöðu til útvarpsstöðvarinnar Bylgjunnar um kvöldið en ekki um morguninn eins og haldið er fram. Bylgjan sá síðan um að koma vinningslögum á framfæri á heimasíðu sínni.
2. Umæddur þátttakandi fullyrðir jafnframt um störf dómnefndar þar sem eftir honum er haft að “ Dómnefndin segist hafa hlustað 3-4 sinnum á lögin 40 svo það er ansi vel af sér vikið á ellefu tímum yfir hánótt"
Vegna þessara orða vil ég bara segja að dómnefnd hefur ekki sagt eitt eða neitt enda ekkert verið spurð og því er þessi fullyrðing algjör uppspuni.
Af þessu tilefni vil ég hins vegar að eftirfarandi komi fram. Ég hef setið sem dómnefndarmaður í 4 skipti af 6 sem Ljóslagið hefur verið valið. Sú nýbreytni var nú viðhöfð að lögin sem bárust var flestum skilað á tölvutæku formi. Þeim var síðan komið fyrir á sérstakt lokað vefsvæði sem dómnefndarmenn höfðu aðgang að og því gátu þeir farið að hlusta um leið og lögin bárust. Því fullyrði ég að aldrei hafi dómnefnd verið eins vel undirbúin og hún var nú.
Það má deila um allt mögulegt og ómögulegt og það er í sjálfu sér bara heibrigt að fólk hafi mismunandi skoðanir á hlutunum. En til þess að eitthvað vitrænt komi út úr slíkum skoðanaskiptum er nauðsynlegt að fólk haldi sig við staðreyndir.
Það skal upplýst hér að þeir sem taka sæti í dómnefnd gera það án þess að þiggja greiðslu fyrir og hafa engan annan tilgang með setu sinni í nefndinni en að vinna þessari keppni eitthvert gagn.
Samkeppnin um Ljósalagið er leið til þess að halda á lofti og minna á merka tónlistarsögu sveitarfélagsins okkar. Því merki eigum við að halda á lofti um ókoma tíð.
Með vinsemd og virðingu fyrir fyrir þeim sem þátt hafa tekið í ljósalagskeppninni hingað til og hér eftir.
Guðbrandur Einarsson
Formaður dómnefndar um Ljósalagið 2008.