Ljóðasamkeppnin Dagstjarnan
Hin árlega ljóðasamkeppni Dagstjarnan á vegum Hollvinafélags Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst er hafin og verður verðlaunaafhending í Útskálakirkju kl. 14:00 á sumardaginn fyrsta 21. apríl næstkomandi.
Ljóðakeppnin er fyrir alla aldurshópa í Suðurnesjabæ og eru allir sem gaman hafa af ljóðagerð hvattir til að taka þátt.
Dómnefnd mun fara yfir ljóðin og velja þau bestu í hverjum aldursflokki og verða verðlaun veitt yngstu börnunum sem eru á leikskólaaldri, grunnskólabörnum og fullorðnum.
Þemað að þessu sinni er Bærinn minn og ég.
Ljóðahöfundar eru beðnir að merkja ljóðin sín á baksíðu með nafni, heimilisfangi og símanúmeri og senda þau í umslagi á bæjarskrifstofu Suðurnesjabæjar Sunnubraut 4, 250 Garði fyrir 12. apríl næstkomandi.
Hollvinafélagið biður ljóðahöfunda að taka fram á baksíðu ljóðsins ef ljóð þeirra mega ekki birtast á vegum félagsins. Fyrirhugað er að safna öllum ljóðunum saman og sýna þau gestum í Sjólyst og einnig hefur forstöðumaður safna í Suðurnesjabæ beðið um samstarf í verkefninu „Ljóð í lauginni“ sem Bókasafn Suðurnesjabæjar verður með í sundlaugum bæjarins. Þá geta sundlaugagestir lesið „plöstuð“ ljóð í heitu pottunum.
Með bestu kveðjum
og von um góða þátttöku,
Stjórn Hollvinafélags
Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst.