Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lítið bréf til Hjálmars
Mánudagur 20. september 2010 kl. 10:00

Lítið bréf til Hjálmars


Blessaður og sæll Hjálmar Árnason.

Staðan í bæjarfélaginu er slæm, hefur verið það lengi, enda tók ég það skýrt fram í grein minni, bréfi til Magneu, að þetta væri erfitt sveitarfélag. En eins og þú veist líklega gengur pólítík út á að hafa mismunandi skoðanir á leiðum til úrbóta. Ég er ekki sammála þeirri leið sem hefur verið valin undir forystu núverandi bæjarstjóra. Sú skoðun mín ber hvorki vitni um sundurlyndi né pólítískan meting. Í grein minni kemur hvergi fram að ég sé á móti framförum í bæjarfélaginu – þvert á móti! Hins vegar tel ég að bæjarstjórinn hafi ekki sýnt nægilega fyrirhyggju miðað við ríkjandi aðstæður. Hann hafi hreinlega farið of geyst. Það væri all undarleg túlkun á grein minni að gera mér upp þá afturhaldssemi að finnast að betur væri komið ef bæjarbúar hristust enn eftir holóttri Hafnargötunni! En innistæða þarf að vera fyrir framförum og uppbyggingu.

Ekki veit ég hvort er betra að vera meðvirkur eða sundurlyndur. Best held ég þó að vera málefnalega gagnrýninn svo langt sem það tekst. Mér þykir miður að þú skulir telja mig mann sundurlyndis bara vegna þess að ég hef efasemdir um og samþykki ekki orðalaust aðgerðir bæjarstjórans. Ég hef nefnilega ávallt litið á mig sem samvinnumann með sterka samfélagskennd. Einmitt þess vegna læt ég í mér heyra þegar mér ofbýður.

Kærar kveðjur
Þinn fyrrvernadi skólabróðir og íbúi í Keflavík,
Skúli Thoroddsen

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024