Líkamsrækt og meðganga
Ég hef velt því fyrir mér hvernig bæta má heilsu ófrískra kvenna, líðan þeirra á meðgöngu og eftir hana. Hvernig er best að takastvið nýja hlutverkið sem foreldri og með breyttan líkama sem fylgir því að ganga með barn/börn?
Sem þjálfari, kona, tveggja barna móðir og áhugamanneskja um allt sem tengist bættri heilsu, þá er þetta mér ofarlega í huga. Þetta er verkefni sem mig langar að miðla til og hjálpa öðrum konum með.
Af hverju að stunda þjálfun á meðgöngu? Er þetta rétti tíminn? Ég er svo þreytt, það er barn að vaxa inni í mér þannig að ég ætti að geyma þetta til betri tíma! Er varhugavert að æfa á meðgöngu? Ég er ekki í neinni þjálfun fyrir, af hverju ætti ég þá að byrja núna?
Þetta er eitthvað sem ég heyri oft.
En!
Rannsóknir hafa sýnt að hjá þeim konum sem stunda þjálfun á meðgöngu, gengur fæðingin hraðar og betur fyrir sig og þær þurfa síður deyfilyf.
Það eru minni líkur á:
• Keisaraskurði
• Meðgönguþunglyndi
• Meðgöngusykursýki
• Meðgöngueitrun
• Kvíða
• Streitu
• Grindarverkjum
• Þreytu
Þær konur sem stunda líkamsrækt á meðgöngu eru með sterkara stoðkerfi, ná sér fyrr eftir meðgönguna, fá betri svefn og auk þess geta æfingar hjálpað til við ýmis bakvandamál eða jafnvel komið í veg fyrir þau. Fyrir utan þessa upptalningu, sem er ekki tæmandi listi, má ekki gleyma því að þær hafa betri stjórn á þyngdaraukningu.
Hver er ávinningurinn? Fylgjan stækkar og flytur því meira súrefni til barnsins. Síðast en ekki síst stuðlar regluleg líkamsrækt á meðgöngu að góðu andlegu og líkamlegu jafnvægi.
Hvað svo?
Eftir meðgönguna stöndum við uppi með nýjan einstakling, sem þarf alla okkar athygli, og með breyttan líkama sem við þurfum líka að hugsa um. Aðlögunartími kvenna að nýju hlutverki er mislangur en því miður gleymum við okkur í amstri dagsins, við gleymum að hugsa um okkur!
Þreyta, líkamleg og andleg vanlíðan fer að gera vart við sig. Hvað er til ráða?
Einhvers staðar verður maður að finna orkuna og gleðina sem var meiri. Hver vill enda sem þreytt húsmóðir sem oftar en ekki týndi „skvísunni“ á meðgöngunni?
Hvar er hana að finna?
Góð byrjun er að hitta aðrar konur sem eru staddar á sama stað í lífinu. Fara í mömmuleikfimi með börnin. Þar er hverri og einni konu mætt á því stigi sem hún er stödd og þaðan unnið upp á við til að bæta þrek sem leiðir til bættrar líðan, betri móður, betri maka og betri einstaklings.
Helsta ástæðan fyrir því að fólk fer ekki af stað í líkamsrækt eru afsakanir, svo sem ekki rétti tíminn, tímaskortur, þreyta og svona mætti lengi telja.
Finndu þér tíma FYRIR ÞIG! Settu sjálfa þig í forgang og ég get bókað að þú getur skilað meira af þér til annarra sem þurfa á þér að halda.
Ekki bíða! Sjáumst
Bestu kveðjur,
Ásta Mjöll Óskarsdóttir
ÍAK-einkaþjálfari, hóptímakennari í Sporthúsinu Reykjanesbæ