Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Líflína frá Evrópusambandinu
Miðvikudagur 22. október 2008 kl. 09:40

Líflína frá Evrópusambandinu

Samkvæmt grein í Fréttablaðinu þ. 9/10 hefur einn af varaforsetum Evrópuþingsins Diana Wallis komið því á framfæri opinberlega að Íslendingar geti fengið flýtimeðferð inn í Evrópusambandið og þar með tafarlausan stuðning við íslenska fjármálakerfið. Þetta er mikill vottur um samúð með því ástandi sem ríkir á Íslandi um þessar mundir. Ótrúlega klaufaleg og vanhugsuð ummæli seðlabankastjóra Davíðs Oddssonar varðandi innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi (svonefnda Icebank reikninga) og harkaleg viðbrögð viðbrögð Breta í kjölfarið urðu til þess að Kaupþing, stærsti banki Íslands, varð gjaldþrota nánast strax í kjölfarið. Seðlabankinn er gjörsamlega rúinn öllu trausti og ber stjórnvöldum skylda til að víkja bankastjórum Seðlabankans tafarlaust frá.

Ef þessi líflína frá Evrópusambandinu, sem gerir okkur kleift að ganga inn í Evrópusambandið á aðeins 3 mánuðum og þar að auki fjárhagsleg aðstoð strax, verður ekki þegin væri það eins og blaut tuska í andlit almennings í landinu. Bullandi verðbólga og verðtrygging og lánin æða upp er það ástand sem við búum við í dag. Þarna verður Samfylkingin að taka á honum stóra sínum og sýna þjóðinni hvað í henni býr.

Nýtum þennan einstaka vinargreiða, sækjum um aðild og þiggjum alla þá aðstoð sem því fylgir. Peningamálastefna þjóðarinnar er nú ein rjúkandi rúst og verða Sjálfstæðismenn að taka á sig fulla ábyrgð á þeim málum sem forystuflokkur í íslenskum stjórnmálum liðinna ára. Ábyrgð hans er mikil. Krónuna út og Evruna inn á aðeins 3 mánuðum.

Sigurjón Gunnarsson
Norðurtúni 6
Sandgerði

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024