Liðónýtir þingmenn Suðurnesja
Enn eitt kjörtímabilið hafa kjósendur á Suðurnesjum látið frambjóðendur til Alþingis ljúga upp í opið geðið á sér. Eitt helsta baráttumál Suðurnesjamanna, tvölföldun Reykjanesbrautarinnar, mun verða að veruleika árið 2033. Þremur árum eftir að innflutningsbann á bifreiðum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti tekur gildi. Hver kaus það? Þau orð sem afi minn heitinn, blessuð sé minning hans, hafði um Framsóknarmenn voru ekki fögur og reyndi maður þótt ungur væri frekar að draga úr en hitt.
Í dag er ég ekki frá því að sá gamli hafi bara verið með sitt upp á punkt og prik. Framsóknarfagurgali formannsins nær ekki lengra en að hann fái tryggt sæti í höllinni við Austurvöll. Hvað hann sagði til að komast þangað skiptir engu máli. Tilgangurinn helgar meðalið. Hvernig fór hann með Sigmund Davíð? Hvernig fer hann með Reykjanesbrautina? Sí ofan í æ virðast Suðurnesin vera skilin eftir þegar hið háa Alþingi fer að dreifa fjármunum um landið. Ekki einu sinni er hægt að nota hér milljarðana sem ríkissjóður hefur fengið út úr sölu eigna á varnarsvæðinu sáluga. Þar er helst að þakka þingmönnum sem hafa verið svo uppteknir við að skrifa akstursdagbækur að ekki hefur gefist tími til að sinna þeim verkefnum sem kjósendur ætlast til af þeim. Það er tímafrekt að skara eld að eigin köku. Laun og rekstrarkostnaður fyrir um tvær milljónir á mann sem gerir ekki neitt yrði aldrei liðið hjá einkareknu fyrirtæki en þrjúhundruðþúsund manna þjóð finnst sjálfsagt að hafa 63 slík eintök á Austurvelli.
Ekki veit ég hvað veldur þrælsótta kjósenda á Suðurnesjum, svo ekki sé til tals aumingjaskapurinn í sveitarstjórnunum sem bara kyngja því sem að þeim er rétt. Hvar er stoltið? Er svona gott að sitja á opinberu jötunni að óþarfi er að láta í sér heyra til að rugga ekki bátnum? Er samtryggingin slík að það eru bara allir glaðir með sínar milljónir og þaðan af meira á mánuði. Væla bara á Fésbókinni og gera ekkert þangað til næst verður kosið? Þá getur fagurgalinn hafist að nýju. Á þessu kjörtímabili þó skammt sé á veg sé komið er búið að sanna að troða má snuði uppí unga efnilega stjórnmálamenn með pólitískum bitlingum í formi stjórnarformannssetu í ríkisfélögum. Formaðurinn deilir út brauðmolunum og fótgönguliðarnir grjóthalda kjafti. Skiptir þá engu máli þótt fótgönguliðarnir hafi skipað sér í forystusveit verkefna sem kjósendur telja forgangsverkefni Suðurnesjum. Í eina tíð hefðu þetta verið kölluð svik.
Hvað er hið rétta í stöðunni fyrir kjörna fulltrúa sem láta eigin hagsmuni ganga fyrir hagsmunum kjósenda? Ég tel víst að menn mér kærir og tengdir sem hafa horfið yfir móðuna miklu snúi sér í gröfinni. Þvílíkur aumingjaskapur sem hér er við lýði. Hvað varð um stolt Suðurnesjamanna? Stopp - hingað og ekki lengra.
Góðar stundir.
Margeir Vilhjálmsson