Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lestur er lífsleikni
Fimmtudagur 7. júní 2018 kl. 06:00

Lestur er lífsleikni

Þjóðarsáttmáli um læsi var undirritaður 15. september 2015 hér í Reykjanesbæ.  Hann var gerður í framhaldi af útgáfu Hvítbókar um umbætur í menntun (2014) milli menntamálaráðuneytis og sveitarfélaga. Markmiðið er að ná hlutfalli þeirra sem ná grunnviðmiðum (2. stig) í lesskilningi PISA  úr 79% (2012) í 90% 2018. Það vakti undrun mína að ekki var minnst einu orði á bókasöfn hvorki í Hvítbókinni né sáttmálanum, hvorki almennings- né skólasöfn þó svo það sé löngu viðurkennt að söfnin eru best til þess fallin að veita aðgang að fjölbreyttu lesefni.

Skv. samningnum áttu sveitarfélögin  að setja sér læsisstefnu. Reykjanesbær hefur lokið við það verkefni og sett sér metnaðarfulla stefnu með skýrum markmiðum, leiðum til að ná þeim og mælikvörðum til að meta árangur. Í þessari stefnu er gert ráð fyrir bókasöfnum sem þátttakanda í að efla læsi barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Vonandi verður framkvæmd stefnunnar í samræmi við vonir og væntingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað getum við svo gert til að ná þessu markmiði? Þetta er samfélagslegt verkefni en ekki bara skólans að leysa. Við verðum öll að vera með og vinna saman að lausninni.

Foreldrar þurfa að vekja áhuga barna á lestri strax frá fæðingu með því að lesa fyrir þau, hafa bækur á heimilinu og gera lestur að hluta af lífinu og tilverunni.
Almenningsbókasafnið eflir áhuga yngsta aldurshópsins með heimsóknum af ýmsu tagi, sögustundum og fjölbreyttu og miklu úrvali lesefnis og styður starfsemi grunnskólasafnanna með ítarefni og enn meira úrval af lesefni fyrir mestu lestrarhestana. Safnið býður líka upp á sumarlestur fyrir börn í 1.-5. bekk, kjörið tækifæri til að taka þátt og viðhalda lestrarfærni.  Almenningsbókasafnið er einnig „þriðji staðurinn“, þar er frítt inn fyrir alla og þar er ró og næði og hægt að vera laus við ys og þys daglegs lífs.

Heimanám skólabarna ætti svo til eingöngu að snúast um lestur, það þarf að æfa hann eins og allt sem ná á góðum tökum á.
Stjórnsýslan á svo að sjá um að tryggja fjármagn og tíma til að sinna verkefninu og sýna stuðning og  skilning.

Ég segi lesefni en ekki bók því það skiptir ekki öllu máli hvort lesin sé bók á pappír, tölvu, spjaldtölvu, lesbretti eða í síma. Það sem skiptir máli er textinn, tungumálið, orðaforðinn, persónurnar, söguþráðurinn og boðskapurinn. Hver og einn getur valið það form sem honum hentar best.
En af hverju er læsi svona mikilvægt? Það er löngu sannað að það skiptir öllu máli að vera læs og hafa góðan lesskilning þó svo það liggi ekki alveg ljóst fyrir öllum í fyrstu. Þú þarft t.d. að geta lesið og skilið launaseðilinn þinn svo dæmi sé tekið.
Góð saga gefur færi á að samsama sig við persónur, spegla sig við aðstæður, dreyma stóra drauma og upplifa ævintýri. Góð saga er upplagt tæki til að kenna dyggðir, meta hvað er rétt og rangt, velta fyrir sér siðfræði og heimspekilegum spurningum. Góð saga er besta tækið til að kenna lífsleikni.

Ekki má gleyma samveru- og ánægjustundunum þegar sest er niður með góða sögu, leyfa sér að gleyma stund og stað, ekki síst með barn í fanginu,  kúra saman,  njóta kyrrðar og næðis og lesa.

Hulda Björk Þorkelsdóttir, gamall bókaormur