Lestur er daglegt líf
Á árunum 2003 -2006 stóð yfir í Reykjanesbæ verkefnið Lestrarmenning. Það beindist bæði að grunnskólum, leikskólum og samfélaginu í heild. Verkefnið fól í sér eflingu lestrarfærni, málskilnings og bókmenntaáhuga. Yfirstandandi skólaár eru grunnskólarnir með nýtt verkefni sem kallast Lestur er daglegt líf og hefur sömu markmið. Hver skóli hefur útfært verkefnið og gert sér vinnuáætlun.
Eitt af því sem allir grunnskólarnir ætla að gera er að setja af stað framhaldssögulestur í samvinnu við heimilin. Í því felst að foreldrar eða aðrir fullorðnir á heimilinu lesa daglega, eða að minnsta kosti fjórum sinnum í viku framhaldssögu fyrir börnin sín og þau kvitta síðan fyrir lestur foreldranna á þar til gerð kvittanablöð. Hugmyndin er að þetta standi yfir í þrjár til fjórar vikur.
Verkefnið er hugsað fyrir nemendur í fyrsta til fjórða bekk. Umsjónarkennarar hafa síðan vikulegar sögustundir þar sem nemendurnir skila inn kvittanablöðum og segja frá bókinni sem verið er að lesa í framhaldssögulestri á þeirra heimili. Þetta verður góð samverustund á heimilinu auk þess að efla orðaforða barnanna og glæða bókmenntaáhuga þeirra.
Barn sem elst upp við bækur í umhverfi sínu, lestur foreldra sinna og það að lesið sé fyrir það er líklegra til þess að þróa með sér löngun til lestrar.
Lestur foreldrann fyrir börnin byggir upp orðaforða þeirra og eykur lesskilning.