Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lélegur aðbúnaður hjá Hundeftirliti Suðurnesja
Fimmtudagur 14. apríl 2005 kl. 12:32

Lélegur aðbúnaður hjá Hundeftirliti Suðurnesja

Að morgni 11. apríl sóttum við dýrið okkar til Hundaeftirlits Suðurnesja.

Hann hafði sloppið frá okkur laugardagskvöldið 9. apríl, en þar sem hann hafði sloppið einu sinni áður og þá skilað sér aftur eftir 3ja tíma bæjarrölt, vorum við róleg fyrstu þrjá tímana en eftir það var farið að leita og var bærinn fínkemmdur bæði af okkur og vinum, en hvergi fannst dýrið. Um kvöldmatarleitið á sunnudag vorum við virkilega orðin hrædd um að eitthvað hefði komið fyrir og höfðum samband við lögreglu sem tjáði okkur um að þeir hefðu tekið hann og komið honum fyrir hjá Hundaeftirlitinu og gáfu þeir okkur upp símanúmer hjá Magnúsi dýralækni.

Ég hringdi í Magnús klukkan 20:43 á sunnudagskvöldinu og sagðist Magnús þá vera í Reykjavík og ekki hafa neinn til að fara niðureftir til að afhenda okkur dýrið(en það rétta var að það var enginn sem gat tekið á móti greiðslu, og viðurkenndi Magnús það á mánudeginum).

Sagði hann okkur að vitja hans morguninn eftir, hann væri búinn að borða, fara út og væri í góðu yfirlæti. Við sóttum hann svo á mánudagsmorgni og fórum með hann heim. Þegar heim var komið kemur í ljós að dýrið er draghallt á þremur fótum af fjórum og er allur krambúleraður í framan, vantar hár á trýnið, sár fyrir neðan annað augað og á hinni augabrúninni. Einnig vantaði stykki í aðra afturlöppina alveg inn að beini og aðeins minna á hina, þá var hann mjög aumur í annarri framloppunni og við nánari athugun kom í ljós að ein kló var brotin.

Ástæða þes að dýrið slasaðist er okkur sögð vera að hann braust út úr búrinu(en samkvæmt nánari skoðun seinna um daginn hjá öðrum dýralækni vill hann meina að dýrið hafi fest sig í búrinu og stóri skaðinn á annarri afturloppunni hafi komið þegar var verið að losa dýrið). En þau vildu meina að hann hafi tvisvar brotist út úr búrinu og í annað skiptið komist fram og sett viðvörunarkerfi hússins í gang.

En að mínu áliti eru þessi búr ekki ætluð svona stórum og sterkum dýrum(en hann er blanda af Labrador og Irish setter, og með rosalegan stökkkraft). Þetta eru ferköntuð álbúr með hvössum brúnum. Einnig eru hundar og kettir hafðir í sama rými sem að sjálfsögðu æsir dýrin upp.

Eftir þessar hamfarir dýrsins var ekki einu sinni litið á hann, hvað þá heldur að honum væri gefið eitthvað. Þegar við sáum í hvaða ástandi dýrið var í hringdum við aftur til Magnúsar og sagði hann okkur að koma með hann því hann vildi líta á hann. Við fórum með hann og leit Magnús á hann(og viðurkenndi að hann hefði kært okkur fyrir illa meðferð á dýrinu ef það hefði verið komið með dýrið svona til hans eftir okkur). Magnús sagði að þetta væru smávægileg meiðsl sem myndu gróa á 2-3 dögum, en er við höfðum orð á að fara með þetta lengra bauðst hann til að endurgreiða okkur gæslugjaldið og að málið væri úr sögunni, og með það fórum við aftur heim.

Þegar fór að líða á daginn sáum við að honum bara versnaði og var farinn að skríða um svo við fórum með hann til annars dýralæknis, sem byrjaði á því að gefa dýrinu verkjastillandi svo það væri hægt að skoða hann. Dýralæknirinn talaði um að trúlega væri táin brotin en að það væri ekki hægt að sjá það fyrr en um næstu helgi þar sem bólgur og bjúgur væri svo mikil og lét hann okkur hafa með honum vikuskammt af verkjalyfjum, og sagði okkur að hann myndi alltaf haltra og að þetta myndi alltaf há honum. Einnig vildi hann meina að dýrið hefði orðið fyrir miklu áfalli og væri mjög óttaslegið. Var hann meira að segja farinn að urra á okkur heimilisfólkið ef við komum við meiðslin hans, en hann er dýr sem aldrei urrar og er umtalaður fyrir blíðu, góðmennsku og hvað hann sé mikil barnagæla.

En tekið skal fram að hann er ekki búrvanur, en var samt í búri þegar hann dvaldi hjá hundaþjálfaranum. Hann var búinn með fyrsta námskeið hjá hundaþjálfara og var að styttast í það næsta en hann var í undirbúningi í að fara á leitarnámskeið, þar sem ætlunin var að nota hann við leitir hjá björgunarsveit.

Þar sem dýrið kemur til með að haltra það sem eftir er og ekki geta tekið sprett þá er það út úr myndinni. Einnig hefur þetta andlega sjokk það mikil áhrif að hann verður aldrei eins, þannig að sá kostnaður sem við erum nú þegar búin að leggja út í þjálfun er farinn fyrir bý, plús það að það á eftir að fylgja þessu talsverður kostnaður hjá dýralækni.

Dýrin okkar eru bara eins og börnin okkar og er þetta því óbætanlegur skaði fyrir utan það tilfinningatjón að horfa uppá dýrið kveljast eins og hann virðist gera þrátt fyrir verkjasprautu.

Samkvæmt öllu eiga þetta að vera viðurkenndir fagaðilar sem þarna starfa en samt kemur dýrið svona frá þeim. Jú Magnús baðst afsökunar en það er ekki nóg þegar honum er ekki treystandi fyrir dýrum(miðað við þá skoðun sem dýrið fékk, eða vildi hann bara þagga niður í okkur og losna við okkur sem fyrst, hélt hann virkilega að dýrið væri okkur bara 5.000 króna virði? Það er lágt verðmætamat á því sem manni þykir vænt um).

Eða er það skoðun Magnúsar að ef dýrin slasast sé það ekki svo mikið mál, það megi bara svæfa það og fá sér nýtt.

Myndum við gera það við börnin okkar, hann er jú eina barnið sem við eigum saman.

Jóhanna Sigríður Halldórsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024