Leikskrá óskast
Tottenham Hotspurs á marga stuðningsmenn á Íslandi – ekki síst eftir að þeir léku við Keflavík í Evrópukeppni árið 1971. Nýlega fórum við nokkrir á leik á White Heart Lane. Byrjuðum á að sækja pubbinn The Bricklayers þar sem heitustu stuðningsmenn hittast til að hita upp fyrir leik og æfa söngva. Var sjálfur með íslenskan Spurs-trefil um hálsinn.
Óhætt er að segja að hann hafi vakið mikla athygli á The Bricklayers. Einn heitasti stuðningsmaðurinn kom til okkar og spurði hvaðan við kæmum. Þótti honum ótrúlegt að til væri öflugur Tottenham-klúbbur á Íslandi.
Hrópaði það yfir kránna við mikinn fögnuð viðstaddra. Vildi kappinn, Pat Gordon, endilega skipta á treflum. Nú sækir hann alla leiki með Tottenham Iceland trefil en ég ylja mér við trefil sem hefur sótt fjöldann allan af leikjum. Vildi að honum fylgdu textarnir sem hafa komið úr hálsi fyrrum eigenda (líklega ekki allir prenthæfir).
Pat þessi Gordon safnar leikskrám. Mikið væri nú gaman að geta sent honum leikskrána frá leik Tottenham í Keflavík árið 1971. Á einhver hana til? Vinsamlegast hafið samband við [email protected].
Kærar kveðjur,
Hjálmar Árnason