Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Leikskólinn Holt í Evrópusamstarfi
Fimmtudagur 14. apríl 2016 kl. 06:00

Leikskólinn Holt í Evrópusamstarfi

Leikskólinn Holt hefur tekið þátt í Evrópusamstarfi undanfarin ár en síðastliðið haust byrjaði skólinn í stóru Erasmus+  verkefni, „Through democracy to literacy“ sem hægt er að þýða sem „Læsi í gegnum lýðræði“ en Holt er stýri skóli verkefnisins. Síðastliðið haust fór hópur kennara frá leikskólanum í heimsókn í leikskóla í Póllandi þar sem þeir lærðu af kennurum þar ásamt því að kynna sér kennsluaðferðir og leiðir.


Vikuna 4 til 8. apríl  fékk leikskólinn Holt til sín hóp kennara í svokallað „teacher training event in Iceland“ þar sem kennarar frá Póllandi, Spáni og Slóveníu unnu með kennurum á Holti, lærðu nýjar aðferðir,  tóku þátt í heims-kaffi umræðum um málefni er vörðuðu skólana alla ásamt ýmsu öðru, en rauður þráður var sem fyrr lýðræði og læsi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Verkefninu er skipt niður í fjögur tímabil. Haustið 2015 rýndi hópurinn í hlutverk kennara, tímabilið sem nú stendur yfir varðar þátttöku barna og lærdómsferli þeirra, næsta haust skoðum við svo hlutverk foreldra og hvernig hægt er að efla þau enn frekar inn í leikskólum og að lokum skoðum við dagskipulag og umhverfið, efnivið og fleira.


Það sem kennarar fá út úr  samstarfi við skóla í öðrum löndum er æði margt en samkvæmt stuttri könnun sem gerð var í leikskólanum Holti kemur fram að kennurum finnist þeir fá gott tækifæri til sjálfsskoðunar þegar þeir rýna í eigin aðferðir og ræða þær við aðra kennara. Þeir frá tækifæri til að eiga faglegar umræður í víðari hópi en áður, og bera saman starfsaðferðir við aðferðir annarra kennara frá ólíkum menningarheimum og síðast en ekki síst fá þeir tækifæri til að þróast og þroskast sem fagmenn, efla samheldni í starfsmannahópnum og verða sterkari sem heild. Í gegnum umræður spegla kennarar eigið starf, fá nýja sýn á kennsluaðferðir, áherslur í kennslu ungra barna og veltum eigin starfi fyrir sér á annan hátt en áður.


Markmið samstarfsins er faglegt, en tækifæri gafst til að kynna landið og Reykjanesið fyrir gestunum og voru þeir afar hrifnir. Reykjanesið býður upp á fjölbreyttar göngur og skemmtilega útivist og voru kennarar á Holti stoltir af nær umhverfinu og höfðu gaman af að upplifa Reykjanesið með gestunum. 
Samstarf þjóða skilar sér á margvíslegan hátt til kennara og til skólans í heild og munum við á Holti án efa sækjast eftir áframhaldandi samstarfi við aðrar þjóðir. Börnin fá að njóta fjölbreyttara leikskólastarfs og þar með eru kennarar að koma enn betur til móts við þarfir hvers barns. Verkefnið er krefjandi en áhugavert og skemmtilegt. Það er hvetjandi fyrir kennara að taka þátt í stóru verkefni sem styrkir fagvitund og heldur starfinu lifandi.


Innilegar þakkir til  kennara á Holti sem lögðu á sig ómælda vinnu við undirbúning heimsóknarinnar. Einnig færi ég bæjarstjóra, fræðslustjóra og leikskólafulltrúa Reykjanesbæjar sérstakar þakkir fyrir að taka þátt í ævintýrinu með okkur.

Heiða Ingólfsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Holti, Reykjanesbæ