Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Leikskóli fyrir alla eða hvað?
Föstudagur 16. janúar 2004 kl. 10:36

Leikskóli fyrir alla eða hvað?

Það voru kaldar jólakveðjurnar sem meirihluti sjálfstæðismanna (kvenna) hér í bæ sendi fjölskyldufólki nú um jólin.  Þá er ég að tala um hinar ýmsu hækkanir á vegum bæjarins.  Reynt er að bæta úr slæmri fjárhagsstöðu bæjarins með 23-26% hækkun á leikskólagjöldum.  Jafnframt er niðurskurður á yfirvinnu starfsmanna í leikskólum sem hlýtur að valda því að börnin (og þá um leið foreldrar þeirra) fá lakari þjónustu.
Ekki fara þessir peningar í launaumslag starfsfólks leikskólanna og getur hver og einn velt því fyrir sér hvernig þeim verður varið.  Það er þó í sjálfu sér ágætt að meirihlutinn sé farin að átta sig betur á fjárhagsstöðu bæjarins.  En að láta barnafjölskyldur   stoppa í götin er í hróplegri andstöðu við þá  „fjölskyldustefnu“ sem hinn nýi meirihluti lét m.a. kjósa sig útá. Það er kannski bara á tyllidögum og rétt fyrir kosningar sem þessi slagorð heyrast?  Mikið er talað um að brúa bilið á milli leik- og grunnskóla og eru flestir þeirra skoðunar að það sé mikilvægt.  Rannsóknir hafa sýnt að það er góður undirbúningur fyrir börn að vera í leikskóla áður en grunnskólagangan hefst. Ekki virðist meirihlutinn taka mikið mark á þessum staðreyndum, því eftir þessa hækkun hafa sumir foreldrar hreinlega ekki efni á því að láta börnin sín í leikskóla og þá sérstaklega þar sem fleiri en eitt barn á heimilinu eru á leikskólaaldri.  Þá getur það komið betur út fjárhagslega að annað foreldrið sé heimavinnandi og missir barnið þá af þeim grunni sem leikskólastigið gefur því. Undirrituð er í leikskólakennaranámi og finnst sorglegt að á okkar tímum fái ekki öll börn notið þess mikla og góða starfs sem fer fram í leikskólum. Reykjanesbær vinnur nú ötullega að lestrarmenningarverkefninu sem stuðla á að bættri lestrakunnáttu grunnskólabarna.  Skulum við bara vona að þeir foreldrar sem ekki hafa kost á því að láta börnin sín í leikskóla verði duglegir að lesa fyrir þau heima svo þau dragist ekki aftur úr í lestrarnámi. Mér finnst þessi aðgerð meirihluta bæjarstjórnar óskiljanleg, sérstaklega í ljósi þess að bæjar- og skólayfirvöldum virðist mikið í mun að bæta námsárangur grunnskólabarna á komandi árum. Undirrituð hefur orðið vör við mikinn ugg og óánægju meðal foreldra leikskólabarna og vonast til að bæjaryfirvöld endurskoði þessa ákvörðun.

Hafdís Helga Þorvaldsdóttir,
foreldri leikskólabarns

VF-ljósmynd/JKK: Frá leikskólanum Tjarnarseli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024