Leikskóli – dagmamma
Leikskóli – dagmamma
Í kjölfar umræðna undanfarnar vikur um leikskólagjöld og þá hækkun sem varð á þeim langar mig til að segja í stuttu máli frá stöðu minni eftir hækkun gjaldanna og reynslu minni af “kerfinu”. Málið er á þann veg að ég er einstæð móðir með 2 börn, annað á leikskóla og hitt hjá dagmömmu. Eftir hækkun er ég að greiða samtals 68.213 kr. á mánuði í dagvistunargjöld, 43.000 fyrir dagmömmu og 25.213 fyrir leikskólann.
En það voru ekki einungis leikskólagjöldin sem hækkuðu. Ónei, dagmömmugjöldin hækkuðu um 5.000 kr. á sama tíma. Þetta þýddi um 8-9.000 kr. hækkun á dagvistunargjöldum fyrir mig.
Ég fæ örlitla niðurgreiðslu á leikskólagjöldum þar sem ég er einstæð en enga auka niðurgreiðslu hjá dagmömmu. Dagmömmugjöld eru þau sömu fyrir einstæða foreldra og hjón/pör í sambúð (þ.e. niðurgreiðslan frá bænum), eins og komið hefur fram í umræðum undanfarið. Ég fæ ekki systkynaafslátt þar sem yngra barnið er ekki orðið 18 mánaða.
Ég hef athugað nokkur önnur bæjarfélög og í öllum þeim eru þessi gjöld lægri. Meira að segja í “dýru borginni” Reykjavík. Þar sem gjaldskrár bæjarfélaganna eru ekki flokkaðar eins ákvað ég að einblína aðeins á hjónafólk/fólk í sambúð annars vegar og skólafólk og einstæða foreldra hins vegar.
Manneskja í minni stöðu væri að borga 42.600 kr. í Reykjavík, 37.250 kr. í Hafnarfirði, 52.550 kr. í Garðabæ og 39.790 á Akureyri. En hér í Reykjanesbæ “fjölskylduvæna samfélaginu” ekki nema 68.213 kr.
Galdflokkur I | Hjón/par í sambúð | Dagmömmugjald að frádregnum | |||
Gjaldflokkur II | Skólafólk og einstæðir foreldrar | niðurgreiðslum frá bæjarfélagi | |||
Upplýsingar fengnar af heimasíðum bæjarfélaganna | Dagmömmugjald miðað við 54.000 | ||||
Reykjanesbær | Gjaldflokkur I | Gjaldflokkur II | |||
Leikskóli | 31.063 | 25.213 | |||
Dagmæður | 43.000 | 43.000 | |||
Samtals | 74.063 | 68.213 | |||
Reykjavík | |||||
Leikskóli | 32.300 | 16.500 | |||
Dagmæður | 39.150 | 26.100 | |||
Samtals | 71.450 | 42.600 | 25.613 | Mismunur | |
Hafnarfjörður | |||||
Leikskóli | 27.710 | 17.925 | |||
Dagmæður | 28.445 | 19.325 | |||
Samtals | 56.155 | 37.250 | 30.963 | Mismunur | |
Akureyri | |||||
Leikskóli | 31.380 | 18.190 | |||
Dagmæður | 42.120 | 21.600 | |||
Samtals | 73.500 | 39.790 | 28.423 | Mismunur | |
Garðabær | |||||
Leikskóli | 29.600 | 21.650 | |||
Dagmæður | 43.000 | 30.900 | |||
Samtals | 72.600 | 52.550 | 15.663 | Mismunur |
Ég leyfi mér að vitna í grein sem Garðar K. Vilhjálmsson skrifaði, en hann talar um að gott sé að miða við Reykjavík. Þjónusta og verð þar séu svipuð og hér. Það á kannski við um hann og hans fjölskyldumynstur en alls ekki hjá mér og öðrum einstæðum foreldrum. Eins og fram hefur komið væri ég að borga 42.600 kr. fyrir vistun barna minna í Reykjavík en ekki 68.213 kr. eins og hér í Reykjanesbæ! Hér munar “aðeins” 25.613 kr.
Hann segir einnig að þjónusta hér við börn í grunnskóla sé betri en víðast hvar annars staðar og ætla ég ekki að rengja það en ég sem einstæð móðir með eitt barn í leikskóla og annað hjá dagmömmu á ekki að þurfa að greiða fyrir þá þjónustu sem börn í grunnskóla eru að fá eða eitthvað annað! Þú ferð ekki út í búð og kaupir léttmjólk dýrum dómi af því að rjóminn er svo ódýr.. eða hvað?
Annað mál tengt þessu er að ég hef sótt um aðstoð frá Félagsmálayfirvöldum hér í bæ með dagvistunargjöldin. En þar sem ég fell ekki inn í formúluna þeirra, sem er svo innilega óraunhæf, fæ ég enga aðstoð. Þrátt fyrir að ég sé með minna fé til framfærslu í raunveruleikanum en miðað er við þá er ég það ekki samkvæmt þeirra formúlum. Viðmið þeirra er t.d. húsnæðiskvarði miðað við mína fjölskyldustærð er 30.000 kr. Ég sýndi fram á það svart á hvítu að ég er að greiða meira en það fyrir húsnæði, en það skipti engu. Einnig var mér tjáð að viðmiðunarmörk fyrir framfærslu, fyrir einstæða móður með 2 börn, eru 105.846 kr. og þá skiptir engu máli hversu há dagvistunargjöldin eru (þau eru innifalin í þessari upphæð). Miðað við þessa upphæð og dagvistunargjöldin sem ég greiði ætti ég ekki nema 37.633 kr. eftir til að reka bílinn og fæða og klæða fjölskylduna. Það veit hver heilvita maður að þessi upphæð er engan veginn nóg til að reka heimili! Það verður að taka tillit til mismunandi aðstæðna, það passa ekki allir í eitt ákveðið form! Fólki þarf kannski aðstoð í smá tíma, nokkra mánuði. En nei, það passar ekki inn í formúluna þeirra og fá enga aðstoð sem leiðir til þess að það fer á hausinn, verður gjaldþrota og endar sem ennþá meiri “félagsmálapakki” fyrir vikið. Hver er ágóðinn af því? Ég bara spyr.
Sjálfstæð móðir í Reykjanesbæ.