Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 26. október 2006 kl. 08:57

Leiðtogi til framtíðar: Veljum Jón Gunnarsson í 1.sæti.

Í prófkjöri þann 4. nóvember gefst okkur í Samfylkingunni kostur á að kjósa okkur nýjan leiðtoga í Suðurkjördæmi.  Mikilvægt er að við nýtum okkur þetta tækifæri og velja þann sem hefur getu og reynslu af slíkum störfum og er best til þess fallinn að leiða Samfylkinguna í Suðurkjördæmi til sigurs í kosningunum í vor.  Til forystu þurfum við í Samfylkingunni öflugan leiðtoga, mann sem getur tekið erfiðar ákvarðanir,  mann sem tilbúinn er að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir sína eigin og einstakling sem getur unnið heilshugar að því að ná því besta fram í samstarfsfólki sínu.  Til forystu þurfum við mann sem nýtur þess að sjá liðið sitt sigra án þess að leggja áherslu á að eigna sér þau verk sem lögðu grunn að sigrinum.

Ég hef unnið undir forystu Jóns Gunnarssonar í bæjarmálunum í Vogum og veit að það fer maður sem hefur ótvíræða leiðtogahæfileika.  Jón hefur sýnt að hann er tilbúinn að leggja hart að sér til að sjá hagsmunum samfélagsins sem best borgið.  Jón er þægilegur leiðtogi sem leggur sig fram um að ná öllu því besta fram í samstarfsfólki sínu.  Í samvinnu get ég varla hugsað mér þægilegri og vinnusamari samherja í erfiðum verkefnum.  Jón hefur gott lag á að framkvæma áreynslulaust það sem rætt er um og hefur gott lag á að líta á  hindranir og vandamál sem verðug viðfangsefni.  Þessa kosti vil ég sjá í leiðtoga Samfylkingarinnar.

Í Jóni fer athafnamaður sem vel þekkir til atvinnulífs í landinu og hefur einnig látið til sín taka í utanríkismálum.  Sjálfur segir hann þó að helstu baráttumál sín séu fyrir hagsmunum fjölskyldunnar og málefnum eldri borgurum.  Í bæjarstjórnarmálum hefur Jón sýnt að þessi mál eru honum hugleikin því undir forystu hans í Sveitarfélaginu Vogum hefur verið ráðist í metnaðarfull verkefni í þessum málaflokkum.  Bygging þjónustuíbúða fyrir eldri borgara ásamt uppbyggingu íþróttahúss, leikskóla og grunnskóla eru í hópa þeirra verkefna sem unnin hafa verið undir stjórn Jóns.  Í þessum verkefnum sem öðrum hefur framsýni og áræðni einkennt alla framgöngu hans og áhersla hans í bæjarmálunum hefur einatt verði að byggja upp samfélag þannig að litið sé til framtíðar, hugsað stórt með óbilandi trú á uppbyggingu mannlífsins.

Hæfileikar Jóns til forystu eru ótvíræðir og er það mín skoðun að Samfylkingin eigi eftir að njóta þess ótvírætt að hafa Jón Gunnarsson sem leiðtoga flokksins í Suðurkjördæmi.  Þess vegna styð ég  Jón Gunnarsson í 1.sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar laugardaginn 4. nóvember - það ættir þú líka að gera.

Inga Sigrún Atladóttir
Bæjarfulltrúi í Vogum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024