Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Leiðrétting frá SRFS
Fimmtudagur 23. febrúar 2006 kl. 11:50

Leiðrétting frá SRFS

Í næst síðasta tbl. Víkurfrétta birtust ljóð frá Sálarrannsóknarfélagi Suðurnesja, sem byrjaði svona: „Vertu alltaf hress í huga“. Höfund þekktum við ekki en það gerði Inga Sveins í Grindavík sem hringdi á skrifstofu félagsins og upplýsti okkur um höfundinn, sem mun hafa borið skáldanafnið Erla. Samkvæmt eftirgrennslan mun Erla þessi hafa verið Guðfinna Þorsteinsdóttir og gaf hún út bókina Hélublóm árið 1937. Þökkum við Ingu fyrir þessa ábendingu. Inga gat þess jafnframt ekki hefði verið farið rétt með ljóðið og birtum við það hér eins og það kom upphaflega frá höfundi.

LÍFSREGLUR

Vertu alltaf hress í huga,
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga.
Baggi margra þungur er.

Treystu því, að þér á herðar
þyngri byrði´ei varpað er
en þú hefir afl að bera.
Orka blundar næg í þér.

Grafðu jafnan sárar sorgir
sálar þinnar djúpi í.
Þótt þér bregðist besta vonin,
brátt mun lifna önnur ný.

Reyndu svo að henni´að hlynna,
hún þó svífi djarft og hátt.
Segðu aldrei: „Vonlaus vinna!“
Von um sigur ljær þér mátt.

Dæmdu vægt, þótt vegfarandi
villtur hlaupi gönuskeið.
Réttu hönd sem hollur vinur,
honum beindu´á rétta leið.

Seinna, þegar þér við fætur
þéttast mótgangs-élið fer,
mænir þú til leiðarljóssins,
ljóss, sem einhver réttir þér.

Dæmdu vægt um veikan bróður
veraldar í ölduglaum´,
þótt hans viljaþrek sé lamað,
þótt hann hrekist fyrir straum´.

Sálarstríð hans þú ei þekkir
þér ei veist hvað mæta kann,
þótt þú fastar þykist standa;
þú ert veikur eins og hann.

Fyrr en harða fellir dóma,
fara skaltu´í sjálfs þíns barm.
Margur dregst með djúpar undir;
dylur margur sáran harm.

Dæmdu vægt þíns bróður bresti;
breyskum verður sitthvað á.
Mannúðlega og milda dóma
muntu sjálfur kjósa´að fá.

Þerrðu kinnar þess, er grætur.
Þvoðu kaun hins særða manns.
Sendu inn í sérhvert hjarta
sólargeisla kærleikans.

Vertu sanngjarn. Vertu mildur.
Vægðu þeim er mót þér braut.
Biddu Guð um hreinna hjarta,
hjálp í lífsins vanda’ og þraut.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024