Leiðrétting á staðhæfingum
– bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í grein í Víkurfréttum
Vegna greinar í Víkurfréttum þann 3. september eftir Árna Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóra í Reykjanesbæ og og aðra bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þar sem fram komu staðreyndavillur um United Silicon hf. og verkefni okkar í Helguvík, vill undirritaður, Helgi Þórhallsson forstjóri fyrir hönd United Silicon hf., koma eftirfarandi leiðréttingum á framfæri.
United Silicon hf. hefur þegar hafið framkvæmdir við byggingu kísilmálmverksmiðju af sömu stærð og upphaflega var áformað, og rangt að halda því fram að verksmiðjan sé minni en áður var áformað. Starfsleyfi verksmiðjunnar miðast við fjóra 32MW ofna með árlegri framleiðslu allt að 100.000 tonn af kísilmálmi. Starfsmannafjöldi verksmiðjunnar, þegar fjórir ofnar hafa verið byggðir, verður um 200 starfsmenn. Með tilkomu fjögurra ofna verður United Silicon hf. stærsta verksmiðja sinnar tegundar í heiminum. Fyrsti áfangi er einn 32MW ofn og er áformað að framleiðsla hefjist í maí á næsta ári. United Silicon hf. hefur fullan hug á að klára að byggja verksmiðjuna í fulla stærð eins hratt og mögulegt er, en hversu hratt það gengur ræðst aðeins af framboði raforku.
Thorsil hefur fyrirhugað að byggja aðra eins verksmiðju með fjóra ofna og fyrirhuguð stærð þannig sú sama og hjá United Silicon hf. Fullyrðing bæjarfulltrúanna, um að verksmiðja Thorsil verði stærri fullbyggð en verksmiðja United Silicon hf. er röng.
Fullyrðing bæjarfulltrúanna er líka röng, þegar þeir halda því fram að umhverfisyfirvöld hafi staðfest að mengun með tilkomu verksmiðju Thorsil verði vel innan marka. Við lestur og álit Skipulagsstofnunar um matsskýrslu Thorsil, kemur skýrt fram að Skipulagsstofnun telur að mengun verði alveg á mörkunum og mun fara yfir lögbundin viðmiðunarmörk á þynningarsvæðinu sem skilgreint var fyrir Norðurál verkefnið. Stofnunin leggur mikla áherslu á, og krefst þess, að gerð verði ítarleg loftmengunarvöktun á svæðinu, til að tryggja að loftmengun nái ekki inn í íbúðarhverfi í norðurhluta Keflavíkur.
Það er ljóst að stofnunin myndi ekki fara fram á slíkt, nema þörf væri fyrir hendi, ef til kæmu tvær stórar kísilmálmverksmiðjur hlið við hlið.
Staðreyndin er sú, að ekki er þörf á skilgreiningu þynningarsvæðis fyrir verksmiðju United Silicon hf. eina og sér, hinsvegar breytist myndin ef til kæmi verksmiðja Thorsil. Í eigin matsskýrslu Thorsil kemur fram að skilgreina þarf þynningarsvæðið, af því að loftmengun þá mun fara yfir viðmiðunarmörk, vegna starfrækslu beggja verksmiðjanna hlið við hlið.
Það skal tekið skýrt fram að United Silicon hf. hefur að sjálfsögðu engan áhuga á að taka þátt í almennum umræðum í tengslum við komandi íbúakosningu í nóvember um frekari uppbyggingu stóriðju í Helguvík. Það er hins vegar kappsmál fyrir United Silicon hf., að réttar upplýsingar komi fram um félagið og verkefni þess. Þess vegna viljum við leiðrétta þessar staðreyndarvillur, þannig að umræðan í bæjarfélaginu í aðdraganda komandi íbúakosningar geti átt sér stað á réttum forsendum.
Reykjanesbæ, 11. september 2015
f.h. United Silicon hf.
Helgi Þórhallsson, forstjóri.