Leiðrétting
Að gefnu tilefni vil ég koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri vegna greinar Sigmars Eðvardssonar þann 2. apríl sl.:
Í grein Sigmars Eðvardssonar, bæjarfulltrúa í Grindavík, á forsíðu vf.is þann 2. apríl sl. lætur hann að því liggja að heimildir þær sem blaðamaður DV leggur til grundvallar skrifum sínum um einkahlutafélagið Suðurnesjamenn séu frá mér komnar.
Það er alrangt.
Viðkomandi blaðamaður hringdi í mig vegna umfjöllunar sinnar og svaraði ég spurningum hans í mjög stuttu máli í greininni sem birtist í DV þann 1. apríl sl. Ég greindi frá því að Grindavíkurbær hafi fallist á að gerast hluthafi í einkahlutafélaginu Suðurnesjamönnum eftir að Sigmar mælti með því. Bærinn tapar rúmum fjórum milljónum vegna fjárfestingar í félaginu. Sigmar var fulltrúi bæjarins á hluthafafundum. Ég var beðin um að sitja einn fund, að ég taldi í forföllum Sigmars, en hann mætti svo jafnframt á þann fund.
Blaðið fékk engar frekari upplýsingar frá mér, nema þá persónulegu skoðun mína að Grindavíkurbær átti ekkert erindi inn í þetta félag og við hefðum aldrei átt að fara út í þessa fjárfestingu.
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir
bæjarstjóri.