Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Leiðarkerfi Strætó í molum
Föstudagur 16. janúar 2015 kl. 10:12

Leiðarkerfi Strætó í molum

– Björk Lind Snorradóttir skrifar

Ég er nemandi sem stundar nám við Verzlunarskóla Íslands. Ég bý í Reykjanesbæ og hef tekið rútu til að koma mér á milli staða.

Fyrir áramót sá SBK um að ferja farþega á milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur en þeir eiga stórt hrós skilið frá mér og sennilega öðrum sem nýttu sér þessa þjónustu fyrir áramót, fyrir þeirra góðu vinnubrögð. Starfsmennirnir gátu svarað spurningum sem farþegar höfðu og tímataflan stóðst.

Nýverið gerði Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum samning við strætó, en þessi samningur átti meðal annars að bæta þjónustu við íbúa Reykjanesbæjar og nágrennis.

Milli jóla og nýárs var svo gefin út bæklingur sem innihélt verð fyrir hverja leið (55,88,89) og tímatöflur. Það sem vantaði var hvar þú gast keypt til dæmis þessa farmiða og hvernig þú getur komið þér úr Firði, Hafnarfirði og inn í Reykjavík en einungis fyrsta rútan sem fer á morgnana fer alla leið sem sagt endar ferðina á Umferðarmiðstöðinni, rútuferðir sem fara á milli 7:55 og 12:55 enda í Firði Hafnarfirði.

Fyrsta rútan sem fer þá 6:43 frá Krossmóa, á að aka eftir Hringbrautinni og taka upp farþega sem standa við stoppistöðvar á bilinu 6:35 – 6:41.

Ég hef hringt nokkrum sinnum í þjónustuverið hjá Strætó og fólkið sem situr við símann hefur ekki getað svarað öllum þeim spurningum sem ég hef spurt í sambandi við leið 55 (Keflavík – Reykjavík).

Í fyrstu hringdi ég og spurði hvar í Reykjanesbæ er hægt að kaupa farmiða, svarið var: „á Hafnargötu 51- 55“ en í því húsi eru skráð 9 fyrirtæki. Eftir ítarlegri skoðun kom í ljós að miðar eru keyptir í búðinni 10-11.

Þar sem ég bý í efra hverfinu í Keflavík labba ég niður á Hringbraut til að ná strætó sem á að fara samkvæmt áætlun klukkan 6:43 frá Krossmóa sem er í Njarðvík.

Ég ákvað því að hringja aftur í þjónustuverið hjá Strætó og spurningin var; hvar og klukkan hvað get ég tekið strætóinn sem ekur eftir Hringbrautinni á morgnana. Þessi spurning reyndist vera of erfið fyrir fólkið sem sat við símann þennan daginn en frá fyrri aðilanum fékk ég tvö mismunandi svör en annað þeira var „þú getur tekið hana á Hringbrautinni“ (en hún er rúmlega 2km á lengd). Mér var svo gefið samband við mann sem átti að geta svarað mér, en hún stoppar sem sagt á sömu stöðum og hún gerði fyrir áramót. Því miður gat ég ekki fengið eina ákveðna niðurstöðu þannig að morguninn eftir beið ég við enda Hringbrautarinnar og fylgdi ég henni á bíl inn í Krossmóa til að sjá nákvæmlega hvar hún stoppaði.

Í síðustu viku lendi ég svo í því að vera að bíða eftir grænu ljósi til að ganga yfir Kringlumýrarbrautina í strætóskýlið þegar rútan ekur framhjá mér þá 4 mínútum á undan áætlun, ég hélt að þó svo umferðin gengi vel og væri lítil mætti rútubílstjórinn ekki keyra bara eins og honum sýnist. Ég ákvað að pirra mig nú ekki of mikið á þessu og beið í rúman klukkutíma eftir næsta strætó.

Nú á mánudaginn tók ég rútuna sem fer frá Krossmóa klukkan 7:55 og er áætlaður komu tími inn í Fjörð klukkan 8:34. Ég hef tekið þessa rútu nokkrum sinnum og aldrei hefur hún verið á þessum tíma en hún er yfirleitt komin á tímabilinu 8:41- 43. En það skipti kannski ekki mesta málinu í þessari rútuferð á mánudagsmorgni. Tíminn sem ég átti að mæta í byrjaði 9:35 og taldi ég mig hafa nægan tíma til þess að koma mér í skólann, en nei allt kom fyrir ekki.

Bílstjórinn byrjar á því að tilkynna okkur það að skiptimiðavélin er biluð, við vorum ekki sátt með að þurfa borga 4 miða fyrir farið í bæinn og svo 1 miða til að koma okkur á áfangastað inn í Reykjavík með öðrum strætó, en mér finnst frekar lélegt þegar þeir ætla að fara að rukka þig um annan farmiða af því að búnaðurinn er ekki í lagi. Bílstjórinn tók þá upp á því að handskrifa skiptimiða fyrir alla farþegana. Þegar það er búið var klukkan rúmlega 8 og hann þegar orðin 5 mínútur á eftir áætlun. Frá Krossmóa á hún að fara upp á völl, en þennan morguninn vorum við komin inn í Ytri-Njarðvík þegar hann beygir út á Reykjanesbrautina og snýr í rauninni við til að fara upp á völl að ná í þá farþega sem höfðu staðið úti í kuldanum að bíða eftir rútunni. Við þetta varð rútan um 20 mín of sein og misstum við farþegarnir af tveimur strætóum sem við hefðum átt að geta tekið samkvæmt tímatöflunni sem er gefin út frá þeim. Frá Firði tóku svo aðrar 20 -25 mínútur við þar sem umferðin á morgnana er mjög mikil. Þennan daginn mætti ég of seint í skólann vegna kunnáttuleysis á leiðarkerfið og lélegs tækjabúnaðar. Þennan morguninn þakkaði ég fyrir það að hafa skilningríkann kennara, en þó þurfti ég að gera greinargóða skýringu á því afhverju ég mætti of seint. Þetta er því miður ekki eina tilfellið sem ég veit um að bílstjórar viti í raun ekki hvert þeir eigi að fara.

Miðvikudag í sömu viku er ég komin í fyrsta stoppið á Hringbrautinni og er það staðsett hjá Vesturgötu og Hrigbraut, um klukkan 6:33-34. Þegar strætó 89 (gengur á milli Sandgerði – Garðs – Keflavík) er búinn að keyra framhjá mér um 6:37 fer ég að ná í farmiðana og gera mig til í að rútan sé að koma. Klukkan er orðin 6:53 og ég búin að standa þarna í rúmar 20 mínútur þegar ég ákveð að hringja inn í þjónustuverið og spyrja hvar strætóinn sé. Svarið var að annar er kominn hjá Vogaafleggjara og hinn er hjá Grindarvíkurafleggjara en hann hafði keyrt Hringbrautina klukkan 6:32 og stoppað á fjórum stöðum. Það sem mig langar einnig að vita er hvar er þetta fjórða stopp á Hringbrautinni þar sem þau eru bara 3. Þegar þessu símtali lauk voru liðnar 40 mínútur síðan ég hafði lagt af stað niður á þetta strætó stopp. En við sem biðum þurftu að labba heim til okkar og bíða eftir næstu rútu sem fór 7:55 frá Krossmóa.

Rútan lagði því 3 mínútum of fljótt af stað sem er kannski ekki mikið í huga margra, en margt getur gerst þegar þrjár mínútur eru taldar þegar þú átt að vera að halda áætlun hjá Strætó. Nú okey, þessi strætó var 3 mínútum of fljótur en strætóinn á leið 89 keyrði framhjá okkur sem stóðum við þennan stoppi staur og sá ekki sómann sinn í því að stoppa og taka okkur með inn í Krossmóa þar sem hann var á þeirri leið með sína farþega. Nú spyr ég; vissi hann kannski ekki heldur að rútan hafi verið á undan áætlun, en strætó á leið 89 hefur hingað til alltaf verið á undan rútu á leið 55 í Krossmóann.

Ég tók rútu einnig á hverjum degi fyrir áramót og voru þær rútur sem fóru 7 á morgnana og 4 á daginn yfirleitt þétt setnar. Í dag gengur þú inn og getur valið þér nánast hvaða sæti sem er því það eru svo fair inni í þessari stóru rútu. Bara það að viðskiptavinum hafi fækkað svona svakalega ört á stuttum tíma sýnir fram á að Strætó þurfi að fara að bæta þjónustuna verulega en hún er alls ekki góð í dag.

Ef ég hefði val um að ferðast á einhvern annan máta en með strætó myndi ég aldrei nýta mér strætó valkostinn.

Virðingafyllst,
Björk Lind Snorradóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024