Lausaganga hunda
Ég get ekki orða bundist lengur varðandi einstaka hundaeigendur. Af hverju heldur sumt fólk að lög og reglur gildi ekki fyrir það, bara hina.
Á einni viku hef ég lent í því tvisvar að stórir hundar hafa komið æðandi útúr görðunum hjá sér og ætlað að ráðast á smáhundana mína en blessunarlega hafa þeir sloppið. Í bæði skiptin var um tvo stóra hunda að ræða.
Ég vildi ekki sjá upplitið á þessum hundaeigendum ef þeir lentu í því að hundarnir þeirra dræpu aðra hunda. Ég tala nú ekki um ef þessir hundar réðust á lítil börn að leik. Þá þýddi ekki neitt að væla og segja hann er ekki vondur hundur þetta var slys. Slysið er að svona fólk eins og þessir eigendur eru með hunda!
Að fólki skuli ekki þykja vænna um dýrin sín en það að láta þau ganga laus, öðrum til ama og hættulegt fyrir þau sjálf. Ekki þarf mikið til að dýrin verði undir bíl, svæfð vegna dráps á hundum eða árásar á fólk.
Þetta er fyrir neðan allar hellur og gerir mig svo reiða að ég verð að senda þessi orð til ykkar.
Sigríður Guðbjörnsdóttir