Laus pláss í fjarnámi við kennaradeild Háskólans á Akureyri
Tækifæri fyrir þá sem náðu ekki að senda inn umsókn í vor.
Enn eru nokkur laus pláss fyrir þá sem vilja hefja nám haustið 2006. Tekið verður á móti umsóknum til 11. ágúst og skráningargjald er 51.750. Vakin er athygli á að skrifstofur háskólans eru lokaðar á tímabilinu 3. – 28. júlí og þeim sem vilja koma umsóknum til skila á þeim tíma er bent á að póstleggja þær þar sem lokað hefur verið fyrir rafrænar umsóknir.
Þetta merkir að enn er tekið við umsóknum í bæði staðarnám og fjarnám. Inntökuskilyrðin eru stúdentspróf, sambærilegt próf eða önnur menntun sem háskólaráð metur gilda.
Kennaradeild Háskólans á Akureyri hefur ákveðið að hefja fjarnám til nokkurra staða haustið 2006. Á leikskólabraut verður kennt til Ísafjarðar, Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og Selfoss. Á grunnskólabraut verður kennt til Sauðárkróks, Grundarfjarðar, Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og Selfoss. Námið er samtals 90 einingar sem deilast niður á fjögur ár. Nemendur beggja brautanna taka 25 einingar teknar sameiginlega og þar er því einkar mikilvægur vettvangur til samræðu og skilnings á milli skólastiganna tveggja.
Það hefur alltaf verið keppikefli kennaradeildar Háskólans á Akureyri að mynda góð tengsl á milli nemenda og kennara, nýta kosti nálægðar til fullnustu og varast að láta óþarfar hindranir rísa. Þessi nálægð hefur verið flutt inn í fjarnámið með því að skipuleggja það í kringum námshópa og kenna í gegnum myndfundabúnað (gagnvirkt sjónvarp) til nokkurra staða í senn. Fyrir þeirri aðferð eru margvísleg kennslufræðileg rök, til dæmis er unnt að skipuleggja hópvinnu og annað samstarf meðal fjarnema vítt um land. Kennsla byggist að miklu leyti á góðri samvinnu kennara í milli og mikilvægt er að verðandi kennarar þjálfist í slíkri samvinnu í námi sínu. – Auk beinnar kennslu um myndfundabúnað til fjarnema hafa þeir svo eins og aðrir nemendur beinan aðgang að margvíslegu námsefni og umræðuvettvangi á námsumhverfi á vef, WebCT, og er reynt að gera mun staðarnáms og fjarnáms eins lítinn og unnt er.
Reynsla kennaradeildar HA af því að mynda fjarnámshópa er mjög góð innan og á undanförnum árum hafa slíkir hópar verið myndaðir á fjölmörgum stöðum um allt land.
Við hvetjum lesendur þessa blaðs eindregið til að kynna sér nám á grunnbrautum kennaradeildar HA á vef skólans og vekjum sérstaka athygli á því að enn verður farið af stað með nýja námshópa á bæði leik- og grunnskólabraut í Reykjanesbæ á hausti komanda. Nú er upplagt tækifæri fyrir áhugasama á Suðurnesjum að slást í annan hvorn hópinn með því góða fólki sem þegar hefur innritað sig. Spyrjið þá álits sem hafa numið eða eru í námi hjá okkur og hikið ekki við að hafa samband ef og þegar spurningar vakna.
Bragi Guðmundsson, brautarstjóri grunnskólabrautar, [email protected]
Margrét Jensína Þorvaldsdóttir, brautarstjóri leikskólabrautar, [email protected]
Mynd: Fyrsti útskriftarhópur úr fjarnámi HA á Suðurnesjum.