Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 19. janúar 2001 kl. 11:29

Launamunur er ekki kynbundinn!

Starfsmenn Fjölskyldu - og félagsþjónustu Reykjanesbæjar óskuðu eftir við bæjaryfirvöld að laun þeirra verði leiðrétt þar sem þær töldu að þeim væri mismunað á grundvelli kyns. Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa óskaði eftir fundi með samstarfsnefnd vegna kjarasamninga SÍF við Reykjanesbæ en málinu hefur nú verið vísað til umsagnar Launanefndar sveitarfélaga.
Forsaga málsins er sú að starfsmenn Fjölskyldu - og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, sem allt eru konur, sendu bæjastjórn greinargerð fyrir skömmu, þar sem þær rökstuddu mál sitt með launasamanburði við karlmenn sem störfuðu hjá Reykjanesbæ, þ.e. verkfræðing og byggingafulltrúa. Þær héldu því fram að þeir hefðu jafn mikla menntun og þær, væru á sama stað í skipuriti bæjarins en höfðu samt sem áður mun hærri grunnlaun. Vísuðu þær í yfirlýsta stefnu Reykjanesbæjar þar sem stendur að bærinn ætli að jafna launamun karla og kvenna sem ekki væri hægt að útskýra nema á grundvelli kyns.
Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar fyrir skömmu. Þar lagði bæjarstjóri, Ellert Eiríksson, fram bókun. Þar kemur fram að launamunur félagsráðgjafa sé kjarasamningsbundinn, ekki kynbundinn. Ellert bendir á að launamunur skýrist jafnframt með lífaldurshækkunum, sem eru í öllum kjarasamningum. Hann segir að samanburður á launum út frá skipuriti einu og sér, sé óframkvæmanlegur nema samanburðarmat á störfum liggi fyrir, en slíkt mat er ekki til um tilgreind störf.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur falið Launanefnd sveitarfélaga fullt og ótakmarkað umboð til kjarasamningsgerðar við Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024