Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Látum verkin tala
Þriðjudagur 20. mars 2018 kl. 10:39

Látum verkin tala

Látum verkin tala

Valdið er íbúa Reykjanesbæjar næstkomandi maí. Þá kjósum við bæjarstjórnarfulltrúa. Við Píratar erum viljug til verka og tilbúin til ábyrgðar. Í ár verður líklegast sett met í hversu margir flokkar bjóða fram og verður gaman að sjá hverjum íbúar treysta til þess að reka bæjarfélagið okkar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heilsusamlegt og umhverfisvænt bæjarfélag

Eins og flestir bæjarbúar vita þá hef ég verið talsmaður andstæðinga stóriðju í Helguvík sem barist hafa gegn því að hér rísi iðnaður sem veldur skaða á bæði heilsu fólks og þeirri einstöku náttúruperlu sem er í kringum okkar bæjarfélag. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að breyta því hvernig bæjarfulltrúar hafa velferð íbúa bæjarins í huga, því að mínu mati má gera betur.  Ég gef því kost á mér í prófkjöri Pírata fyrir bæjarstjórnarkosningarnar.

Atvinnulíf til framtíðar í Reykjanesbæ

Kraftar mínir munu nýtast vel í því að byggja upp bæjarfélag sem er réttlát, sanngjarnt og ber virðingu fyrir heilsu fólks. Loftgæðum verður ekki fórnað - né heldur ásýnd okkar fallega bæjarfélags. Skuldastöðu bæjarfélagsins verður að laga án þess að fórna heilsu bæjarbúa. Ég vil leitast eftir því að rétta úr þessari skekkju með því að færa okkar bæjarfélag inn í nútímann með meira samstarfi og bættu umhverfi fyrir tækni, hugbúnað og fyrirtæki sem eru með gagnaver á svæðinu.

Orkan sem streymir inn í bæjarfélagið er umhverfisvæn og það eitt og sér er nóg til þess að laða að mörg stór fyrirtæki í þessum geira inn í okkar bæjarfélag. Það sem upp á vantar er að búa þannig um taumana að þessi fyrirtæki setjist hér að. Það gerum við með góðu samstarfi við þau fyrirtæki og þá einstaklinga í Reykjanesbæ sem starfa í tæknigeiranum. Ég vil einnig opna á meira samtal, samvinnu og íbúalýðræði, þar sem bæjarbúar koma að stórum ákvarðanatökum, sem varðar þá

Lausnir á húsnæðisvanda

Húsnæði er af skornum skammti og er mjög dýrt að leigja í núverandi markaðsumhverfi. Eftir ítarlega skoðun á norræna húsnæðismarkaðinum komst ég, ásamt öðrum, að þeirri niðurstöðu að til þess að við getum byggt hér upp eðlilegan leigumarkað þá þarf tvennt til. Annars vegar þarf að horfa til Norðurlandanna, sér í lagi Svía og hvernig þeir hafa leyst húsnæðisvandann sinn, með framleiðslu einingarhúsa sem hægt er að reisa á skömmum tíma. Hins vegar þarf að stofna óhagnaðardrifin leigufélög sem bjóða upp á ódýra leigu. Leigufélög af þessu tagi telja um 30-40% af leigumarkaðnum í Norðurlöndunum. Ég setti mig í samband við aðila sem voru að vinna að einmitt þessu markmiði og tók þátt í því að stofna íbúðafélag Suðurnesja sem verður fyrsta óhagnaðardrifna leigufélagið sem stofnað hefur verið á Íslandi. Við Píratar getum ekki sætt okkur við að fólk sé í vanda með að koma þaki yfir höfuðið.       

Sjúkrahús og heilsugæsla

Með fjölgun íbúa og minni heilsugæslu í nærliggjandi bæjarfélögum hefur álagið á Heilbrigðistofnun Suðurnesja aukist til muna, auk þess sem  lokun elliheimilis í Garði hafði sitt að segja. Á Suðurnesjum búa um 24 þúsund manns. Til samanburðar þá er Akureyri með stórt sjúkrahús og á öllu Norðurlandi Eystra búa um 29 þúsund manns. Íbúar á Suðurnesjum eiga heimtingu á það að hér sé ekki bara rekin heilsugæsla heldur full útbúið sjúkrahús sem að gæti þá þjónustað íbúa á Suðurnesjum, og með því minnkað álagið á Landspítalann í Reykjavík. Einnig væri þá hægt að færa sjúkraflug upp á Keflavíkurflugvöll. Þetta myndi líka stórauka öryggi og stytta viðbragðstíma ef flugslys yrði því með núverandi fyrirkomulagi er verið að bjóða hættunni heim. Þegar slys verður þá eru ekki margir sjúkrabílar á svæðinu og samkvæmt aðgerðaráætlun skal nota öll tiltæk ökutæki til þess að ferja slasaða farþega á sjúkrahúsið í Reykjavík. Betra er að byrgja brunnin áður en barnið dettur ofan í hann.

Minnkum álag á vegakerfið- Innanlandsflugið á að vera í Keflavík

Þungaflutningar um gatnakerfi landsins, þar sem fleiri þúsund tonnum af fiski og vörum er keyrt á milli landshluta, eru farnir að setja sinn toll á vegakerfi landsins. Flest allir kannast við það slit sem farið er að myndast. Viðhald vega verður að bæta enda mun ódýrara að halda við en að láta innviði grotna niður. Hægt er að minka slit og bæta rekstrarumhverfi fyrir smærri fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni, ef innanlandsflug væri fært á Keflavíkurflugvöll, með uppbyggingu og áherslu á fraktflutninga, samhliða farþegaflutningum frá Keflavíkurflugvelli. Hér myndi minnka bæði álag ferðamanna og fraktflutninga á vegakerfið okkar sem er nú þegar farið að láta á sjá. Þetta er meginforsenda þess að innanlandsflugið sé fært á Keflavíkurflugvöll og það minnkar álag og leysir mörg vandamál sem við erum að kljást við á landsvísu.

Forritun er lykilinn að stærsta vinnumarkaði í heiminum- Leggja þarf miklu meiri áherslu á tækni- og raungreinar í skólakerfinu.

Reykjanesbær getur lagt áherslu á það að forritun verði skyldunám í grunn- og framhaldsskólum. Þeir sem koma á vinnumarkað 2030 hafa þegar hafið skólagöngu og það þarf að leggja mun meiri áherslu á hæfni, það er hæfileikana til að draga ályktanir. Sömuleiðis þarf að leggja áherslu á störf sem eftirspurn verður eftir, til dæmis í tækni- og raungreinum. Þess vegna þarf að leggja meiri áherslu á að gera forritun að skyldunámi í grunn- og framhaldsskólum. Reykjanesbær getur óskað eftir því að í námskrá grunn- og framhaldsskóla á svæðinu verði gerð tilraun með að koma þessum fögum inn í nám skólana. Forritarar geta unnið fyrir fyrirtæki alls staðar í heiminum og búið í Reykjanesbæ.

Þetta eru þau helstu verkefni sem að brenna á mér og ég mun berjast fyrir því að þessi málefni verði að veruleika sem fulltrúi Pírata í bæjarstjórn Reykjanesbæjar