Látum rödd okkar heyrast
Framundan eru spennandi tímar og fólk er að kalla á eftir breytingum hér á landi, þjóðfélagsbreytingum. En hvernig breytingar eru það sem fólkið í landinu vill sjá? Til þess að finna út úr því þarf þjóðin að eiga samtal sín á milli, það er að segja samtal á milli ráðamanna þjóðarinnar og hins almenna borgara þessa lands. Þjóðin þarf líka að vilja, þora og hafa kjark til þess að láta rödd sína heyrast. Pírötur (konur innan Pírata) boðuðu til fundar hér í Reykjanesbæ og svo í Grindavík til þess að heyra hvað konur hér á svæðinu vildu tjá sig um, hvaða sýn þær hefðu á framtíðina. Um hvaða hugsjónir, breytingar og framtíðarsýn þær sjá fyrir sjálfar sig, börn sín og barnabörn. Þessi fundur var óháður því hvort þú tengdist eða tengdist ekki Pírötum eða öðrum samtökum eða félögum. Það var ekki margmennt á þessum fundum hvort sem nýliðnum forsetakosningum, fótbolta eða öðru er um að kenna, veit ég ekki. En það sem ég vil segja og tilgangurinn með þessum pistli mínum er sá, að ef þér er boðið upp á samtal þar sem þú getur látið rödd þína, skoðanir og framtíðarsýn í ljós þá mættu og taktu þátt í samtalinu. Hvort það séu stjórnmálasamtök, kvenfélagið eða íþróttahreyfingar sem vilja hlusta á þína sýn hvað varðar framtíðina, þá mættu. Við erum öll mikilvæg, við höfum raddir og við höfum skoðanir. Við höfum framtíðarsýn fyrir okkur, börn okkar og barnabörn, um hvernig við viljum að þjóðfélagið okkar sé næstu árin. Hvort sem þú ert karl, kona, eldri borgari, öryrki eða ungmenni, þá tjáðu þig um þína sýn og hugsjónir. Við höfum kannski búið við þöggun of lengi og ekki þorað að tjá okkur en núna er þjóðin að kalla á breytingar svo látum rödd okkar og skoðanir hljóma. Því þannig virkar lýðræðið, þannig gerum við breytingar og þannig viljum við eiga samtal.
Margrét Sigrún Þórólfsdóttir
Pírati