Látum Geysi gjósa!
Mikil fjölgun á erlendum ferðamönnum hér á landi undanfarin misseri reynist mörgum áhyggjuefni. Náttúruperlur okkar eiga undir högg að sækja vegna áníðslu og sitt sýnist hverjum um hvernig eigi að bera sig að við gjaldtöku, eða hvort gjaldtaka sé réttmæt yfirhöfuð.
Kannski má með sanni segja að það sé gullæði í ferðaþjónustunni. Atvinnugrein í vexti og ekki veitir af. Gjaldeyririnn sem flæðir inn stefnir í að verða meiri en af höfuðatvinnugrein Íslendinga í gegnum árin, sjávarútveginum.
Gistinætur erlendra ferðamanna árið 2012 voru samkvæmt tölum Hagstofunnar 2,8 milljónir. Heildargistinóttum útlendinga á Íslandi hefur fjölgað um tæplega eina milljón á undanförnum 5 árum. Heildarfjöldi ferðamannanna á bakvið þessar gistinætur var um 600 þúsund. Að meðaltali um 5 gistinætur á hvern ferðamann.
Þessir góðu gestir ferðast um fallega landið okkar, fótgangandi, á reiðhjólum, í rútum og síðast en ekki síst á bílaleigubílum. Enginn ferðamaður sem kemur til landsins má missa af „Gullna hringnum“ eða einstakri upplifun í Bláa Lóninu. Bláa Lónið er líkast til verðmætasta vörumerkið í íslenskri ferðaþjónustu fyrir utan Icelandair, en „Gullni hringurinn“ stutt lýsing á okkar helstu náttúrugersemum sem kallast Þingvellir, Geysir og Gullfoss.
Geysir hefur því miður ekki látið á sér kræla síðan 1996, en það mun víst flokkast undir náttúruspjöll ef landeigendur þar leyfa sér að gera það sem til þarf til að glæsilegasti hver Evrópu gjósi. Slíkt gos yrði íslenskri ferðaþjónustu og ekki síst Haukadalssvæðinu farsælt. Samfélagsmiðlarnir myndu sjá um dreifingu á efninu og heimsóknum erlendra ferðamanna til landsins fjölga til muna. Milljón erlendir ferðamenn á ári er ekkert markmið. Ferðaþjónustan fer ekki að verða alvöru atvinnugrein fyrr en ferðamennirnir sem heimsækja landið ár hvert verða 3 milljónir og gistinæturnar ennþá 5 að meðaltali. Þá getum við kallað þetta alvöru iðnað. Það allavega veitir ekki af ef í burðarliðnum eru tvö 500 herbergja hótel í höfuðborginni. Fallega landið okkar er 100 þúsund ferkílómetrar og plássið því nægt.
Þann 30. september árið 2006 var herstöðinni á Keflavíkurflugvelli lokað. Síðustu árin bjuggu þar að meðaltali um 3.000 manns. Ég veit ekki til þess að þessir hermenn hafi verið flokkaðir sem íbúar hér á landi. En þeir voru hér – og því mætti færa fyrir því rök að þeir hafi verið ferðamenn sem dvöldu hér allt árið um kring. 365 daga á ári. Milljón gistinætur á ári. Ef að því er deilt með 5 – þá má kannski segja að hermenn á Keflavíkurflugvelli hafi verið ígildi 200 þúsund ferðamanna. Við erum því rétt að ná jafnvægi í ferðaþjónustuna á Íslandi eftir að lang stærsta hóteli landsins var lokað í Keflavík.
Margeir Vilhjálmsson
framkvæmdastjóri Bílaleigunnar Geysis