Látum ekki ótta hlekkja okkur við fortíðina
Á laugardaginn næstkomandi gefst Íslendingum kostur á að velja sér nýjan forseta. Nýtt andlit á alþjóðavettvangi. Nýjan forseta í embætti sem á að vera hafið yfir hefðbundin pólitísk átök og flokkadrætti. Nýtt sameiningarafl. Við, sem þessi orð skrifum, sitjum í bæjarstjórn Grindavíkur og erum m.a. oddvitar þriggja stjórnmálaflokka, Lista Grindvíkinga, Samfylkingar og Framsóknar. Augljóslega er margt ólíkt með okkur þremur; lífsskoðanir, forgangsröðun verkefna og afstaða til Evrópusambandsins svo eitthvað sé nefnt. Við erum bæði í meirihluta og minnihluta. Þrátt fyrir það hefur samstarf okkar verið til fyrirmyndar, rekstur bæjarfélagsins að ná jafnvægi, skuldahlutfallið langt undir hinum nýju viðmiðunarreglum og mikið af framkvæmdum framundan til að efla atvinnusköpun.
En hver er ástæðan fyrir því að bæjarfulltrúar ólíkra flokka sem eru bæði í minnihluta og meirihluta geta unnið svona vel saman? Svarið við því er einfalt: við horfum á það sem sameinar okkur! Við reynum að starfa í sátt og samlyndi, eiga í stöðugum samskiptum sem byggja upp traust og virðingu fyrir hvort öðru. Þetta hefur gert okkur kleift að vinna úr krefjandi verkefnum á samstilltan og öruggan hátt og þannig komið meiru í verk á skemmri tíma en ef þras og sundrung hefði einkennt störf bæjarstjórnar.
Síðustu ár hafa verið viðburðarík og ljóst að íslenska þjóðin stendur á miklum tímamótum um þessar mundir. Geðshræring, ótti og bræði hafa sett mark sitt á samfélagið. Nauðsynlegt er að gefast ekki upp fyrir slíkum tilfinningum. Við skuldum sjálfum okkur, börnunum og þjóðinni allri að horfa nú til framtíðar og draga lærdóm af fortíðinni. Það er í okkar höndum að snúa vörn í sókn og byrja að ræða það sem sameinar okkur og þau tækifæri sem eru til staðar til að aðstoða okkur inn í bjartari framtíð.
Þetta er meginástæðan fyrir því að við ætlum að kjósa Þóru. Forseta sem ætlar að beita sér fyrir jákvæðum breytingum í samfélaginu, beita sér fyrir góðu samstarfi og samskiptum við þing og þjóð. Forseta sem mun beita sér fyrir bjartari framtíð og leggja áherslu á það sem sameinar okkur. Við vitum, af eigin reynslu, að besta leiðin til bjartari framtíðar er að læra af fortíðinni en hugsa til framtíðar. Þá er mikilvægt, líkt og Þóra hefur bent á, að takast á við framtíðina með jákvæðni og bjartsýni. Það, að leggja áherslu á það sem sameinar okkur og horfa á framtíðina með jákvæðni og bjartsýni er alls ekki það sama og loka augunum fyrir vandamálunum. Þetta þýðir að þegar við erum jákvæð, bjartsýn og sameinuð, þá er auðveldara að takast á við erfið vandamál og verkefni. Þá myndast grundvöllur fyrir traust og virðingu, fyrir tíð og góð samskipti. Allt leiðir þetta til þess að við getum hraðar brugðist við þeim verkefnum sem þjóðin þarf að takast á við, í sameiningu, næstu árin.
Forseti á að beita sér fyrir sátt og samlyndi í þjóðfélaginu en ala ekki á ótta og sundrung. Við ætlum að kjósa Þóru því það er kominn tími til að Ísland öðlist nýtt andlit út á við, sem er ótengt hruninu og útrás íslenska viðskiptalífsins. Við ætlum að kjósa Þóru því án endurnýjunar erum við dæmd til að staðna og nú er nauðsynlegt að forseti Íslands tali fyrir sátt, samstöðu og réttlæti. Við treystum Þóru fyllilega til að rísa undir þeim skyldum sem forsetaembættinu fylgir og við deilum þeirri hefðbundnu sýn sem hún hefur á forsetaembættið. Að það sé forsetans að sameina þjóðina, vera til staðar ef það myndast gjá milli þings og þjóðar við lagasetningu en að það sé ekki forsetans að láta sína persónulegu skoðun hafa áhrif í embættisverkum sínum.
Við ætlum að kjósa Þóru því við þekkjum af eigin reynslu að boðskapurinn sem hún talar um er það sem hefur skilað okkur árangri í samstarfi – við ætlum að kjósa Þóru því hún er breytingin sem allir hafa verið að bíða eftir. Látum ekki ótta hlekkja okkur við fortíðina. Sameinumst um Þóru sem forseta Íslands.
Bryndís Gunnlaugsdóttir, Kristín María Birgisdóttir, Dagbjartur Willardsson og Páll Valur Björnsson.