Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Láttu drauma þína rætast!
Sunnudagur 16. janúar 2011 kl. 13:36

Láttu drauma þína rætast!

Það var haustið ´99 sem ég skráði mig á námskeið sem bar heitið Láttu drauma þína rætast. Ég stóð á miklum tímamótum í lífi mínu, nýbyrjuð í háskólanámi og óöryggi og efasemdir um framtíðina einkenndi líf mitt. Mundi mér takast þetta, ætti ég eftir að geta séð fyrir drengjunum mínum, gæti ég yfirleitt lært osfrv. Það var mikið frelsi sem fólst í því að setjast niður og skoða hug sinn, með væntingar og drauma um framtíðina að leiðarljósi. Það sem ég komst að á þessu námskeiði var að ég vissi ekki almennilega hvað það var sem mig dreymdi um – hvað ég vildi út úr lífinu en þegar ég gróf djúpt þá fann ég það og leyfði mér að setja það niður á blað. Nú mörgum áður síðar hafa ótrúlega margir af þessum draumum orðið að veruleika og ég verið dugleg að setja mér ný markmið út frá nýjum draumum. Fyrsta skrefið er að vita hvað það er sem við sækjumst eftir.

Þegar við stöndum frammi fyrir nýju ári er gott að líta yfir farinn veg, skoða fortíðina, lærdómana, sigrana og sorgirnar í lífi okkar. Við skoðum allt sem hefur stuðlað að því að við erum á þeim stað sem við erum í dag og sleppum því svo lausu. Við þurfum að átta okkur á hvert við viljum stefna og hverjir draumar okkar eru fyrir framtíðina. Við þurfum að feta þá leið að vera sátt við okkur sjálf eins og við erum í dag og þess að vera stöðugt að vaxa og þroskast. Að takast á við breytingar er eina vísa leiðin að betra sjálfstrausti og er eitthvað sem við eigum að vinna að ævina á enda. Lífið er einu sinni þannig að við fáum ekki útskriftarskírteinið fyrr en í blálokin og þá er undir okkur komið hvað það skírteini inniheldur.


Í dag eru starfandi þrír náms- og starfsráðgjafar hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS). Þeirra hlutverk er m.a að vera til staðar fyrir einstaklinga sem vilja takast á við breytingar í lífi sínu. Ráðgjafinn getur aðstoðað einstaklinginn við að skoða lífið og stöðuna eins og hún er í dag og hvað sé hægt að gera til að breyta núverandi ástandi sé þess óskað. Ef einstaklingurinn er tilbúinn að takast á við breytingar er hlutverk ráðgjafans að aðstoða við fyrstu skrefin, skilgreina úrlausnir, leiðbeina við að draga fram markmið og leiðir að þeim. Þeir sem leita til náms- og starfsráðgjafa eru m.a. einstaklingar sem:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


vilja upplýsingar um nám og störf

vantar aðstoð við að kanna áhugasvið og hæfni (áhugasviðsgreining)

vantar upplýsingar um mögulegar námsleiðir og styrki

vilja aðstoð við að setja markmið og útbúa námsáætlun

nýta tækifærið til að setjast niður með hlutlausum aðila og skoða stöðu sína almennt



Að lokum óska ég ykkur gleðilegs ár og langar að þakka öllum þeim fjölda sem hafa leitað til okkar á liðnum árum fyrir gott samstarf og að hafa treyst okkur fyrir því mikilvæga verkefni að vera til staðar þegar tekin eru fyrstu skrefin í átt að nýrri og vonandi bjartari framtíð.


Þá hvet ég ykkur til að halda draumum ykkar lifandi og setja markmið í samræmi við þá. Markmiðin ykkar eru leiðarvísir að betra lífi og velgengnin er fólgin í að taka skref í áttina að þeim á hverjum degi, ekki bara að ná þeim. Farsæld er ferðalag og hvernig ferðalangar við erum skiptir ekki síður miklu máli en að ná á leiðarenda.


Anna Lóa Ólafsdóttir

Náms- og starfsrágjafi MSS