Las Hobbitann fyrir son sinn á tjaldferðalagi um Evrópu
Listakonan Sossa Björnsdóttir er lesandi vikunnar
Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Sossa Björnsdóttir listamaður en hún er ein af þeim sem les mikið allt árið
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Parísarhjól eftir Sigurð Pálsson og Incomplete and utter history of classical music eftir Stephen Fry.
Hver er uppáhaldsbókin?
Hobbitinn eftir J.R.R Tolkien en hana las ég á ferðalagi um Evrópu og endursagði syni mínum í tjaldi á kvöldin þegar hann var sex ára.
Hver er uppáhaldshöfundurinn?
Halldór Laxness væri flotta svarið en svo eru ungu skáldin svo frábær. Jón Kalman, Gerður Kristný, Guðmundur Andri, Hallgrímur Helgason og Anton Helgi en hann hefur verið og er enn innblástur í málverkunum mínum.
Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?
Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry en hún er góð fyrir sálina. Ilmurinn eftir Patrick Süskind því hún er svo myndræn og Atómstöðin eftir Halldór Laxness.
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Litla prinsinn.
Hvar finnst þér best að lesa?
Í fríi á sundlaugarbakka, í flugi og á flugvöllum og svo bara í góðum stól heima.
Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?
Atómstöðin en hana myndskreytti ég og gerði kápuna á sem BA lokaverkefni fyrir allmörgum árum.
Ef þú værir föst á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Skissubókina mína og dagbókina. Þær eru alltaf með mér.
Lesandi vikunnar er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta og verður nýr lesandi valinn í hverri viku í sumar. Þau sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda geta skráð sig á heimasíðunni sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn eða í afgreiðslu Bókasafnsins að Tjarnargötu 12.