Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Landsvirkjun komi í ríkari mæli að orkusölu til Helguvíkur
Þriðjudagur 29. mars 2011 kl. 09:58

Landsvirkjun komi í ríkari mæli að orkusölu til Helguvíkur

Í ágætri grein Björgvin G. Sigurðssonar 1. þingmanns Suðurkjördæmis sem birtist á vefnum vf.is um síðustu helgi, er sett fram góð hugmynd að lausn þeirrar flækju sem framgangur álversframkvæmda í Helguvík er kominn í. Lausnin felst m.a. í því að Landsvirkjun komi í ríkari mæli að orkusölu til Helguvíkur, auk þess að HS orka og Norðurál nái samningum og málinu þar með upp úr farvegi dómsmála. Björgvin bendir á að þráteflið um orkusölusamninga á milli HS orku og Norðuráls hafi undið upp á sig og tafið verkið á meðan langtíma atvinnuleysi verður æ algengara meðal okkar Suðurnesjamanna. Undir þá hugmynd að Landsvirkjun komi í ríkari mæli að orkusölu til Helguvíkur tek ég heils hugar.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þegar Sveitarfélagið Garður og Reykjanesbær afhentu Norðuráli byggingarleyfi í Helguvík í mars árið 2008 var ekki efast um að næg orka fengist til verksins. Orkusamningar gáfu tilefni til bjartsýni um að verkið gengi greiðlega. Svo varð ekki og um samningana standa nú deilur sem tefja verkið. Samningarnir eru fyrir gerðardómi og niðurstöðu dómsins að vænta innan tíðar. Sama hvernig dómurinn fellur getur hann væntanlega ekki tryggt orku til Helguvíkur innan þeirra tímamarka sem nauðsynleg eru. Með sölu á hlut ríkisins og sveitarfélaga til einkaaðila missti hið opinbera forræði yfir Hitaveitu Suðurnesja. Horfast þarf í augu við þá staðreynd og leita leiða til að leysa vandann eins og Björgvin leggur til.
 


Um leið og bæjarstjóri Reykjanesbæjar Árni Sigfússon tekur undir með Björgvin í grein á vf.is, um að leysa verði hnútinn sem Helguvíkurverkefnið er komið í, þá notar hann tækifærið og kennir ríkisstjórninni og einstökum þingmönnum um stöðu málsins. Hið rétta er að með samþykkt Alþingis Íslendinga á fjárfestingasamningi við Norðurál  hefur  formlegum hindrunum fyrir byggingunni verði rutt úr vegi. Ríkisstjórnin hefur unnið eftir þessari samþykkt enda ber henni skylda til þess.
 


Einnig virðist vera kallað eftir pólitískum afskiptum af veitingu virkjanaleyfa. Slíkum afskiptum hlýt ég að hafna en geri þá kröfu til Orkustofnunar að hún hafi að leiðarljósi hagsmuni Suðurnesjamanna til lengri tíma og geri ekkert það sem leitt gæti til þess að framtíðarhagsmunum Suðurnesja sé teflt í tvísýnu. Það er mikilvægt að vandað faglegt mat liggi til grundvallar virkjanaleyfum, að skynsamleg nýting eigi sér stað og að Suðurnesjamenn þurfi aldrei að glíma við vandamál sem tengjast slæmri meðferð orkuauðlinda.



Miklu skiptir hins vegar að af álversframkvæmdum í Helguvík verði. Þar gæti, eins og áður sagði, aðkoma Landsvirkjunar skipt sköpum. Með þá lausn í huga munum við þingmenn eiga fundi í þingnefndum Alþingis á næstu dögum til að fara yfir allar hliðar málsins.



Oddný G. Harðardóttir
Alþingismaður