Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Landshluti tækifæranna
  • Landshluti tækifæranna
    Mikil tækifæri eru tengd fluginu.
Laugardagur 27. september 2014 kl. 19:00

Landshluti tækifæranna

– Hilmar Bragi Bárðarson skrifar

Þegar Ísland rís úr kreppunni þá verða tækifærin á Suðurnesjum. Ýmis merki eru um það að landið sé að rísa og við sjáum stöðuna batna á Suðurnesjum. Tækifærin í ferðaþjónustu eru gríðarleg á Suðurnesjum og á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum nýverið var flutt erindi um framtíðarhorfur á Keflavíkurflugvelli. Þar kom m.a. fram að árið 2023, eftir níu ár, verði fjöldi ferðamanna til Íslands kominn í tvær milljónir. Í dag eru þeir ein milljón. Þessi fjölgun um eina milljón ferðamanna kallar á yfir 6000 ný störf í tengslum við flugið. Keflavíkurflugvöllur er stóriðja okkar Suðurnesjamanna og ígildi margra álvera. Suðurnesjamenn þurfa að hlúa vel að flugvellinum og stjórnendur flugvallarins þurfa einnig að hlúa vel að Suðurnesjum.

Á forsíðu Víkurfrétta í dag er greint frá lista sem atvinnu- og hafnaráð Reykjanesbæjar vinnur með á fundum sínum. Á þessum lista, sem er leynilegur, er haldið saman öllum þeim atvinnutækifærum sem kynnt hafa verið fyrir yfirvöldum í Reykjanesbæ. Á listanum eru atvinnuverkefni sem komin eru að komast á koppinn og önnur sem eru til skoðunar. Listinn, sem í dag stendur í atvinnutækifærum fyrir 3166 manns, er gagn eða vísbending um að möguleikar Reykjanesbæjar sem og Suðurnesja séu miklir í atvinnumálum.

Innan um öll þessi jákvæðu teikn í atvinnumálum er hins vegar sorgleg þróun þar sem fjölmargar fasteignir á Suðurnesjum eru komnar í eigu Íbúðalánasjóðs en samtals er um 40% eignasafns sjóðsins á Suðurnesjum. Fjölmargar eignir sjóðsins standa einnig auðar og fólki gengur illa að fá þessar eignir keyptar eða leigðar. Eftir hverju er Íbúðalánasjóður að bíða? Er beðið eftir þenslu á Suðurnesjum þannig að þessar eignir fari þá á uppsprengdu verði?

Hilmar Bragi Bárðarson
fréttastjóri Víkurfrétta

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024