Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 22. apríl 2003 kl. 11:11

Lamað stjórnkerfi og pólistískur jarðskjálfti

Í einu vetfangi hefur pólistískt landslag á Íslandi gerbreyst. Tveir stórir flokkar berjast nú um völdin; Sjálfstæðisflokkur til hægri en Samfylking til vinstri. Þetta gerðist þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, ákvað að taka 5. stæti á öðrum Rvíkurlista Samfylkingarinnar í vor. Frá þeirri stundu hefur Samfylkingin mælst í flestum skoðanakönnunum, sem stærsti flokkur þjóðarinnar með um og yfir 35% fylgi. Hér í Suðurkjördæminu er talið líklegt að Samfylkingin fái 4 þingmenn; Margréti Frímannsdóttur, Lúðvík Bergvinsson, Björgvin Sigurðsson og Jón Gunnarsson úr Vogum. Hin unga Brynja Magnúsdóttir, formaður ungra jafnaðarmanna í Keflavík, gæti ef vel tekst til verið í baráttusæti. Þetta eru slíkar gleðifréttir fyrir gamlan verkalýðssinna eins og mig, að þær jafnast á við þær, þegar Berlínarmúrinn féll og Sovétríkin hrundu. Sókn Samfylkingarinnar og gott gengi jafnaðarmanna hefur ekki bætt skapsmuni Halldórs Ásgrímssonar, leiðtoga Framsóknar eða Davíðs Oddssonar formanns Sjálfstæðisflokksins. Má segja að Davíð hafi að meira eða minna leyti verið utan gátta síðustu mánuði og sviðsett hvert leikritið öðru verra. Er nú svo komið samkvæmt könnunum að Davíð hefur minnstan trúverðugleika íslenskra stjórnmálaleiðtoga. Tvö mál eru nú ofarlega á baugi í kjördæminu; læknaskortur á Heilsugæslu Suðurnesja og fall bæjarstjórnarmeirihlutans í Vestmannaeyjum. Í mjög langan tíma hefur 17 þúsund manna byggðarlag, Suðurnesin, mátt búa við algjöra lágmarks læknisþjónustu; 1 eða 2 lækna, nema og nokkrar hjúkrunarkonur. Margir hafa reynt að knýja á um úrbætur en öfgamenn úr röðum heilsugæslulækna og heilbrigðisráðuneytið halda byggðarlaginu í gíslingu. Mjög margir kjósa að sækja sér þjónustu í Reykjavík. Ég fyrir mína parta er gáttaður á ráðherranum, Jóni Kristjánssyni, þar sem ég hafði mjög góða reynslu af honum sem fjárlaganefndarmanni til margra ára. Starfsfólk ráðuneytisins temur sér framkomu, sem hvergi tíðkast í siðuðu landi. Dæmi; Í nóvember sl. boðaði Félag eldri borgara á Suðurnesjum ásamt fjölmörgum félögum og stofnunum til stórrar ráðstefnu um heilbrigðismál. Leitað var til ráðherra eða staðgengils hans, aðstoðarráðherra tilkynnti komu sína. Sú varð samt ekki raunin. Engin kom né nein afsökun. Litið er á okkur Suðurnesjamenn sem nokkurs konar svertinganýlendu af hrokafullum hvítfibbalýð valdamanna. Heilsugæslulæknir á Hvammstanga segir í Mbl „Enginn sómakær heimilislæknir með stéttarvitund sækir um starf við Heilsugæslu Suðurnesja meðan núverandi ástand ríkir“. Ekki tók betra við, þegar nýr framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar tók þar við. Ekki var hægt að notast við innansveitarlið heldur mannaði frú Sigríður skrifstofu sína með fólki úr Reykjavík. Engan skal undra, þótt frúin og Konráð yfirlæknir séu vonsvikin, að Suðurnesjamenn standi ekki í röðum og klappi fyrir ástandinu á Heilsugæslunni.

Hilmar Jónsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024