Kvörtum undan ástandinu á HSS
Ágætu Suðurnesjamenn!
Undirrituð var á fundi í Virkjun þar sem oddvitar flokkanna í Reykjanesbæ voru mættir til þess að ræða atvinnumál á Suðurnesjum. Vandinn við ferðaþjónustu á svæðinu er að hún er engin. Flestir ferðamenn virðast bruna beina leið í gegn. Virtust oddvitarnir allir sammála því að nauðsynlegt væri að þróa ferðaþjónustu á Suðurnesjum sem dygði til þess að halda ferðamönnum nægilega lengi á svæðinu til þess að þeir gætu notið gestrisni okkar, þjónustu og skoðað það sem svæðið hefði upp á að bjóða.
Sérstaklega varð Gunnari Marel leiðtoga VG tíðrætt um þetta efni. Ræddi hann nauðsyn þess að notast við það sem þegar væri til staðar og þarfnaðist ekki mikilla framkvæmda til þess að efla ferðamannaiðnaðinn. Eftir langa tölu um nauðsyn þess að viðhalda góðri þjónustu við bæjarbúa jafnt í heilbrigðiskerfi sem og öðru velferðarkerfi ræddi hann að hann væri óviss um mikilvægi þess að byggja álver en hann vildi endilega efla ferðaþjónustu og slíkan iðnað öllu heldur.
Nú er svo komið að búið er að loka skurðstofum HSS og næsta skref verður væntanlega að loka fæðingardeildinni þar sem hún hefur lítið öryggi umfram heimafæðingar nú þegar skurðstofur eru ekki bakhjarl hennar. Þá er engin launung að bæði Sjúkrahús Akranes og Landspítali Háskólasjúkrahús leita eftir fleiri greiddum verkefnum af þjónustusvæði sínu vegna samdráttar á venjubundinni þjónustu þessara stofnana. Lækningatengd ferðaþjónusta á HSS og Suðurnesjum væri því ekki að taka þjónustu frá einum eða neinum heldur myndi hún í þessu tilviki vera notuð til þess að unnt væri að veita þjónustu á heimasvæði auk þess sem hún væri nauðsynleg innspýting í ferðaþjónustu svæðisins.
Nú býðst bæjarbúum tækifæri til þess að skrifa undir undirskriftallista um það að einkaaðilar fái að reka skurðstofur HSS með það markmið að þjóna íbúum svæðisins fyrir sama kostnað per aðgerð og þær kosta hjá LSH og Sjúkrahúsi Akraness. Til þess að dekka kostnað umfram þjónustu við heimamenn mun þetta félag selja fullborgandi sjúklingum sem vissulega geta verið erlendir gestir sem munu sannarlega stoppa við nokkra daga í bæjarfélögunum okkar. Lækningatengd ferðaþjónusta dregur að ferðamenn sem alla jöfnu eyða fimm til sjöfalt á við venjubundna ferðamenn og hafa auk þess að jafnaði tvo samferðamenn með sér. Þessir sjúklingar leigja bílaleigubíla, taka útsýnisflug, þyrluflug, fara í snyrtingu, klippingu, spa, versla, fara á söfn, fara í hvalaskoðun, fara í rútuferðir og hafa þannig margfeldisáhrif innan bæjarfélaganna. Þannig getum við slegið tvær flugur í einu höggi þ.e. þjónað þurfandi íbúum, skapað störf og aukið tekjur okkar á formi erlends gjaldeyris. Þetta getum við gert án teljandi kostnaðar þar sem öll aðstaða er til staðar.
Ég vil því skora á Suðurnesjamenn að skrifa undir þennan llista sem liggur frammi um allan bæ eða fara á vef Víkurfrétta: http://www.vf.is/LSH/. Við söfnuðum 13000 undirskriftum til þess að kvarta yfir ástandinu á HSS, við getum gert eins vel með því safna sama fjölda um lausn á einu vandamálinu sem jafnframt getur verið stórkostlegt atvinnutækifæri fyrir fjölda íbúa.
Adda Sigurjónsdóttir.